Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. október 2004, kl. 11:29:35 (463)


131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

7. mál
[11:29]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Í þessu frumvarpi birtast að hluta til áherslur okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði í skattamálum. Það tekur að sjálfsögðu einungis á afmörkuðum þætt þeirra mála, þ.e. skattlagningu fjármagnstekna. Þær umræður sem fóru fram hér áðan voru talsvert, að mér fannst, á hlið við umræðuefnið. Þar var fyrst og fremst verið að ræða um launamun vegna launatekna og skattlagningu þeirra almennt eða stöðu þeirra sem lakari hafa aðstöðuna, hvort heldur er á vinnumarkaði eða utan hans sökum örorku eða atvinnuleysis. Ég vík kannski aðeins að því síðar.

Munurinn á Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, og kannski ýmsum öðrum flokkum, er að nöfnum ónefndum sá að við erum ekkert feimin við að gangast við þeirri stefnu okkar að við viljum öflugt samábyrgt velferðarkerfi á Íslandi. Hér viljum við hafa velferðarsamfélag. Við vildum gjarnan og ætlum okkur að mynda velferðarstjórn í landinu fyrr en síðar. Þá verður auðvitað ekki bæði sleppt og haldið.

Það er mikill misskilningur, blekking og loddaraleikur í pólitík að reyna að telja mönnum trú um að hægt sé að gera hvort tveggja, að stórlækka skatta, afsala ríki og sveitarfélögum miklum tekjum, en efla velferðina samtímis. (PHB: Þetta hefur gerst.) Þessar íþróttir voru menn að reyna í kosningaloforðum sínum fyrir kosningarnar 2003. Hverjar eru svo efndirnar? Jú, það á að vísu að fara að lækka skatta, fyrst og fremst á þeim sem hæstar hafa tekjurnar og mestar eignirnar. En ríkissjóður er svo illa staddur að það þarf að svíkja samninga við öryrkja. Afkoman er ekki betri en svo þegar allt kemur til alls.

Þeir hafa stundum skilning á þessu hægri mennirnir þegar rætt er um þörfina fyrir aukin útgjöld, t.d. í menntakerfinu. Þegar talað var um fjárskort Háskóla Íslands skrifaði hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson blaðagrein og sagði: Átta menn sig ekki á því að kröfur um aukin framlög til Háskóla Íslands eru kröfur um skattahækkanir? Þá skildi hv. þm. samhengi, að það verður ekki bæði sleppt og haldið. Menn hafa ekki bæði tekjur til að reka öflugt velferðarkerfi, myndarlegt menntakerfi og heilbrigðiskerfi, en jafnframt lækka skatta og helst bara hafa enga skatta. (Gripið fram í.)

Staðreyndin er sú að skattkerfið þjónar þeim tilgangi sem rætt var um áðan, að afla nauðsynlegra tekna til að standa undir sameiginlegum verkefnum í samfélaginu. Þeirra ætti að afla með réttlátum hætti og jafna um leið að nokkru leyti aðstöðumuninn í þjóðfélaginu, kannski fyrst og fremst í þeim skilningi að þeir borgi sem hafa eitthvað til að borga með. Þetta snýst m.a. um það.

Hér er ekki verið að ræða um skattlagningu launatekna. Við getum að því leyti geymt okkur umræðuna um það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal kallar eðlilegan launamun. Þar erum við væntanlega að tala um launatekjur þar sem mönnum er greitt fyrir vinnu sína. Hér erum við að tala um skattlagningu tekna sem koma síðar til sögunnar, þ.e. skattlagningu á vaxtatekjum, á arði af fjármagni, á söluhagnaði hlutabréfa. Einhvern veginn hafa menn fyrst eignast peninga til að leggja fyrir eða kaupa hlutabréf. (Gripið fram í.) Þess vegna er það náttúrlega enn meira réttlætismál að okkar mati að af þeim tekjum, sem sumir hafa í mjög miklum mæli, sé tekinn eðlilegur og sanngjarn skerfur til að standa undir sameiginlegum þörfum.

Er eðlilegt að menn geti haft hundruð milljóna eða jafnvel milljarða í fjármagnstekjur, nánast skattfrjálst, séu t.d. að stórgræða á gengishagnaði bréfa á verðbréfamarkaði? Á sama tíma telja menn sig þurfa að skattleggja örorkubætur að hluta, skattleggja atvinnuleysisbætur að hluta. Þarf að taka skatt af fólki með 100 þús. kr. á mánuði eða minna í heildartekjur? Finnst hv. þm. Pétri H. Blöndal þetta réttlæti? Það segjum við ekki vera.

Við teljum að þessi breyting, sem gengur út á það eins og framsögumaður fór yfir að í stað 10% flatrar skattlagningar á allar fjármagnstekjur verði greidd 18% en á móti komi skattleysismörk sem nemi 120 þús. kr. í tekjur á ári, sem má ætla að sé arður eða vextir af sparnaði upp á 1–2 millj. kr. eða þar um bil. Þetta felur með öðrum orðum í sér að menn borgi nokkuð hærra hlutfall af þessum tekjum og er það þó ekki hátt. Það verður tæpast sagt að samanborið 18% skattlagningu á hreinum hagnaði fyrirtækja eftir alla frádráttarliði og samanborið við 38% eða yfir 40% skatthlutfall launatekna, þá sé 18% skattur á fjármagnstekjur hátt hlutfall. Enda er það ekki. Í samanburði við önnur lönd er það í raun mjög væg skattlagning.

Ég furðaði mig nokkuð á því að hv. þm. Pétur Blöndal vék ekki einu orði að gildi þess að taka skattleysismörk inn í skattlagningu fjármagnstekna. Hvað þýðir það? Það þýðir að viss sparnaður er skattfrjáls. Þar með er hvati í kerfinu til að leggja fyrir. Menn hafa möguleika til að leggja fyrir nokkrar tekjur og hafa af þeim vexti, eða arð af fjármagni sem þeir leggja til hliðar án þess að það sé skattlagt. Það ætti að hvetja til þess og ýta undir það að um nokkurn almennan sparnað af þessu tagi yrði að ræða. Auðvitað eru þetta ekkert óskaplega háar fjárhæðir. Það er hægt að gera grín að því eins hv. þm. Pétur Blöndal gerði hér, 12 þús. kr. í skattgreiðslur þ.e. 12 þús. kr. frítekjumarki á mánuði. Það munar um þetta sums staðar í þjóðfélaginu. Táknrænt hefur þetta gildi, að hvetja til almenns hóflegs sparnaðar. Menn geta átt 1–2 millj. kr. á góðum reikningum og haft af því vexti árlega án þess að þurfa að borga af því skatta. Menn ættu eitthvað örlítið í handraðanum, eins og stundum er sagt, að menn eigi a.m.k. fyrir útförinni ef svo bæri undir.

Hv. þm. Pétur Blöndal á það til að tala um mikilvægi þess að menn efli sparnað og ráðdeild í samfélaginu. En honum brást bogalistin nú og skautaði alveg yfir þetta atriði, sem ég hefði þó haldið að hv. þm. tæki undir, að þetta væri í sjálfu sér góð lagfæring á kerfinu. Hún er réttlát og sanngjörn. Það má vera að sanngjarnt sé að endurskoða þessi viðmiðunarmörk. Það kemur vel til greina að menn telji fyrir því efnisleg rök að hafa þau rýmri og þá væri meiri hvati í kerfinu fyrir slíkan almennan sparnað.

Eitt af því sem tekist var á um árið 1996, þegar fjármagnstekjuskatturinn var innleiddur, var einmitt þetta. Þau sjónarmið voru uppi, og er rétt að hafa í huga vegna þess sem hv. þm. Birgir Ármannsson sagði, að það voru vissulega skiptar skoðanir um það hvort fara ætti út í þessa flötu skattlagningu sem skattlegði allan sparnað, jafnvel hinar litlu upphæðir þótt þar séu ekki háar fjárhæðir á ferð. Hér voru á þingi talsmenn þess að leitað yrði leiða til að haga skattlagningunni þannig að hún yrði nær því að vera raunskattlagning á raunvaxtatekjur og reynt yrði að hlífa tilteknum almennum sparnaði. Ég man vel að háttvirtur fyrrverandi þingmaður Ragnar Arnalds flutti um þetta nokkrar ræður. Hann hafði á þessu skoðanir eins og fleiri okkar sem þá vorum með honum í flokki á þingi.

Af okkar hálfu færir slík breyting kerfið að vissu leyti í áttina til þess að vera fremur raunskattlagning, vegna þess að það má líta þannig á að skattleysismörkin komi til móts við það að tekið yrði sama hlutfall af öllum vaxtatekjum, bæði verðbótum og vöxtum. Með því yrði um nafnvaxtaskattlagningu er að ræða, t.d. í tilviki óverðtryggðra reikninga. Það mætir því að á tímum nokkurrar verðbólgu er að sjálfsögðu stundum verið að skattleggja litlar sem engar og jafnvel neikvæðar raunvaxtatekjur.

Það er engin ástæða til að óttast að þótt þessi breyting verði gerð muni hún sem slík leiða af sér að menn reyni að flýja með fjármagn sitt úr landi. Það er borðleggjandi, þegar þetta er skoðað og borið saman við önnur lönd, að umhverfið hér yrði áfram hagstætt, a.m.k. að þessu leyti. Umhverfið er hagstætt að flestu leyti öðru. Hér er t.d. skattur á hagnað lögaðila, hagnað fyrirtækja, mjög lágur. Hér er að því leyti eitt lægsta skatthlutfall sem finnst innan OECD, þau 18% sem þetta er komið niður í í dag.

Hvort sem við skoðum skattlagningu á hagnaði sem til fellur vegna umsvifa í atvinnurekstri eða skattlagningu á prívatfjármagnstekjur manna þá verður skattaumhverfið áfram mjög hagstætt. Það er af öðrum ástæðum sem menn taka til fótanna með fé sitt og setja sig niður erlendis, eins og reyndar er mjög í tísku. Fróðlegt væri fyrir menn að velta fyrir sér hve stór hluti af stærstu mógúlum íslensks viðskiptalífs í dag hefur flutt lögheimilið úr landi á undanförnum missirum. Sögð eru risin upp hverfi í nálægum löndum fyrir íslenskar auðmannafjölskyldur þar sem jafnvel eru komnir íslenskir barnaskólar. Það er ekki vegna þess að skattaumhverfið á Íslandi sé að hrekja menn á brott, þvert á móti. Það er af einhverjum öðrum ástæðum að Ísland er orðið of lítið fyrir þessa stóru karla.

Frumvarpið gengur einnig í þá átt, herra forseti, að færa örlítið til, þótt í litlu sé, og til baka skattbyrðina eins og henni hefur verið dreift í landinu og hún hefur færst til undanfarin ár. Hvert hefur skattbyrðin færst, herra forseti? Hún hefur færst frá háum launum, frá stórum og miklum eignum og hagnaði í atvinnurekstri. Hún hefur ekki gufað upp. Nei, hún hefur færst á lág laun, meðaltekjur og veltuskatta. Ríkissjóður hagnast á neyslu og mikilli eyðslu í þjóðfélaginu, bæði í gegnum virðisaukaskattskerfið, tolla og aðflutningsgjöld og annað í þeim dúr.

Með þessu væri örlítill hluti skattbyrðarinnar aftur færður á þá sem hafa miklar tekjur af fjármagni. Útreikningarnir sem liggja til grundvallar sýna mjög vel að fámennur hópur einstaklinga er kominn til sögunnar í landinu sem hefur gríðarlegar tekjur af fjármagni. Annars mundi þessi kerfisbreyting, þrátt fyrir upptöku skattleysismarka gagnvart lágum fjármagnstekjum, ekki skila jafnmikilli raunaukningu og raun ber vitni.

Það er ósköp einfaldlega hægt að gera kerfisbreytingu sem gerir þorra einstaklinga í landinu skattfrjálsan hvað varðar fjármagnstekjur en nær um leið viðbótartekjum í ríkissjóð upp á 3 milljarða kr. með því einu að hækka hlutfallið úr 10% í 18% og taka upp þessi frítekjumörk gagnvart fjármagnstekjum. Ástæðan fyrir því að það er hægt er einfaldlega sú að fámennur hópur hefur gríðarlega háar tekjur. Það gerir í blóðið sitt þegar prósentan er hækkuð eins og raun ber vitni.

Hvernig á að nota þær tekjur sem til falla með þessum hætti? spurði hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Er þetta endilega rétt ráðstöfun? Ég skildi það svo að hann væri annars vegar að spyrja um það fé sem vissulega fer í að búa til skattleysismörkin gagnvart fjármagnstekjum og jafnvel hvað ætti að gera við afganginn upp á 3 milljarða. Það er nóg með það að gera, hv. þm.

Við höfum barist fyrir því á þingi og í stjórnmálum landsins í nokkur ár, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, að gera fyrsta skólastigið í landinu gjaldfrjálst eins og hin, að leikskóladvöl verði gjaldfrjáls og menn þurfi ekki að borga 30–50 þús. kr. á mánuði fyrir börn sín á undirstöðuskólastiginu, leikskólanum. Þeir 3 milljarðar kr. sem þarna kæmu til sögunnar gerðu meira en að mæta öllum innheimtum leikskólagjöldum í landinu ef því væri að skipta. Með þeirri einu breytingu værum við búin að fjármagna það stóra framfara-, réttlætis- og jafnaðarmál gagnvart ungu barnafjölskyldunum í landinu. Leikskóladvölin væri ekki byggð á gjaldtöku sem fellur svo skyndilega niður þegar börnin verða sex ára og byrja í grunnskóla.

Talandi um samþættingu skólastiganna í landinu þá sjá allir hversu hróplega ranglátt þetta er, sérstaklega þegar horft er til stöðu fjölskyldnanna. Fáir deila um að staða yngstu barnafjölskyldnanna sem eru að koma úr skóla sé einna erfiðust, að koma sér upp þaki yfir höfuðið og jafnframt með háa tekjutengda endurgreiðslu námslána á bakinu.

Svo eitt dæmi sé nefnt væri þarna tilvalin ráðstöfun á fjármunum af þessari stærðargráðu og þarf ekki einu sinni allt til. Þetta mætti gera eins og við leggjum til í þingmáli okkar, að í samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga yrðu færðar til tekjur þannig að sveitarfélögin geti í áföngum horfið frá innheimtu leikskólagjalda, t.d. með því að ríkið létti af þeim greiðslu húsaleigubóta. Þær yrðu færðar inn í skattkerfið og samræmdar vaxtabótum. Úr yrði samræmdur húsnæðisstuðningur við fólk sem væri sem hlutlausastur gagnvart því hvort menn kaupa sér húsnæði eða leigja.

Að lokum aðeins um launamun og tilgang skattkerfisins í landinu.

Hv. þm. Pétur Blöndal hélt hér gamalkunnuga ræðu og rökstuðning fyrir því sem hann kallar eðlilegan launamun. Það var helst á honum að heyra að markaðurinn væri óskeikull í þeim efnum og skattkerfið ætti ekki á nokkurn hátt að skipta sér af því, t.d. með því að menn borgi eftir efnum. Það hafa nú þótt gömul og góð sannindi lengi á Íslandi að menn borgi eftir efnum og ástæðum eins og kallað er, að reynt sé að hlífa þeim við útgjöldum og greiðslum sem engin efnin hafa, en hinir leggi meira af mörkum. Þegar talað er um eðlilegan launamun, hvað eiga menn þá við? Eiga menn við hann eins og hann var á Íslandi fyrir kannski 10–15 árum? Það eru rétt rúm 20 ár síðan, herra forseti, að hér var á þingi maður sem flutti þingsályktunartillögu um að setja ætti ramma utan um launamuninn þannig að það væri bannað að hann væri meira en tvöfaldur, að enginn maður skyldi hafa meira en tvöföld laun annars, að það væri nóg, meira en nóg til þess að taka tillit til þessara þátta sem hv. þm. Pétur Blöndal var að nefna um hæfni manna og dugnað og hvað það nú var. Launamunur á Íslandi var talinn svona þrefaldur til fjórfaldur. Það þekktust ekki miklu hærri laun en fjórföld, fimmföld almenn laun þangað til fyrir svona tíu árum síðan. En hver er hann í dag? Nú er mjög algengt í meðalstórum, svo ekki sé nú talað um í stærstu fyrirtækjum landsins, að forstjórarnir og æðstu yfirmenn hafi tíföld til tuttuguföld laun almennra starfsmanna í fyrirtækinu. Þannig er þetta komið á Íslandi og þykir ýmsum nóg um. Er það það sem hv. þm. Pétur Blöndal kallar eðlilegt að forstjórinn hafi laun á við 30 almenna starfsmenn í fyrirtækinu? Eru þeir nú misduglegir og missnjallir forstjórarnir eins og kunnugt er. Eða viljum við fara alla leið til Bandaríkjanna þar sem samkvæmt könnun í fyrra höfðu forstjórar 100 stærstu bandarísku fyrirtækjanna að meðaltali fjögur hundruð og fimmtán til tuttuguföld laun almennra starfsmanna í sömu fyrirtækjum. Hver forstjóri var svona geysilega duglegur og verðmætur að hann var 415 manna maki. Er það það sem hv. þm. Pétur Blöndal kallar eðlilegan launamun sem ekki eigi að hrófla við með tekjujafnandi skattkerfi? Það er hugarheimur sem ég á ákaflega erfitt með að samsama mig í öllu falli, herra forseti.

Ég minni aftur á að þetta frumvarp snýst fyrst og fremst um það að hvaða marki hinar hreinu tekjur sem fjármagnið er að færa mönnum eru skattlagðar, til viðbótar því sem þeir eru vonandi að vinna fyrir með höndum og höfði, þeir sem eru í aðstöðu til þess.

Það var að sjálfsögðu skref fram á við í sjálfu sér þegar menn komust að þeirri niðurstöðu fyrir um áratug síðan að auðvitað væri fráleitt annað en skattleggja svona gróða sem á Íslandi hafði fram að því verið að hluta til skattfrjáls. Menn völdu að vísu þá skrýtnu leið að færa hlutafjáreigendum og þeim sem voru að fá greiddan arð gífurlega jólagjöf í formi skattalækkunar því slíkar tekjur höfðu áður verið skattlagðar með vissum frávikum eins og almennar launatekjur. Því var fírað á einu bretti úr yfir 40% skatti og niður í 10%. Þetta var einhver stærsta jólagjöf til stóreignamanna sem nokkurn tímann hefur verið afhent á Íslandi. Það að lækka sérstaklega hátekjuskattinn, sem er jólagjöf ríkisstjórnarinnar núna árlega til þeirra sem mest hafa þörfina eða hitt þó heldur, er bara brot af því sem þá fór fram.

Þetta var að sjálfsögðu upphafið og það þýðir ekki að það beri að standa óbreytt um aldur og ævi. Það er meira en tímabært að taka nú til skoðunar hvort ekki sé rétt að halda áfram að þróa þetta kerfi og breyta því. Það erum við að leggja hér til og ég vona svo sannarlega að þetta mál fái ásamt með öðrum sem tilheyra skattasviðinu vandaða skoðun á þessu þingi.