Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað

Mánudaginn 18. október 2004, kl. 17:00:10 (576)


131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

191. mál
[17:00]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

Í frumvarpinu, sem lagt var fram á 130. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga, er lagt til að lögfest verði heimild til að birta Stjórnartíðindi eingöngu á rafrænu formi. Þá eru einnig lagðar til nokkrar breytingar sem miða að því að gera birtingu laga, stjórnvaldserinda og milliríkjasamninga í senn skilvirkari og ódýrari. Frumvarpið er samið af nefnd sem skipuð var af dóms- og kirkjumálaráðherra í september árið 2000. Nefndinni var falið að gera tillögur um framtíðarskipulag á birtingu laga og stjórnvaldsfyrirmæla og þar með talið að endurskoða gildandi lög með tilliti til möguleika á rafrænni birtingu samhliða eða í stað hefðbundinnar birtingar.

Nefndin hóf starf sitt með því að undirbúa rafræna birtingu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs á netinu. Í því skyni var útbúinn sérstakur gagnagrunnur Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs sem var opnaður á netinu í febrúar árið 2002.

Góð reynsla af útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðsins á netinu varð til þess að heimilað var með lögum nr. 165/2002 að hætta prentaðri útgáfu Lögbirtingablaðs og gefa það eingöngu út á rafrænu formi, þó þannig að þeir sem þess óska geti keypt prentaða útgáfu af því.

Með frumvarpi því sem nú liggur fyrir er lagt til að lögfest verði sams konar heimild til að birta Stjórnartíðindi eingöngu á rafrænu formi. Ljóst er að rafræn birting laga og annarra settra réttarreglna getur haft ýmsa kosti í för með sér, einkum þá að auðvelda aðgengi að þeim og að stuðla að sparnaði og hagræðingu þegar fram í sækir. Þó þarf að tryggja að lögin séu aðgengileg þannig að réttaröryggi sé tryggt. Því þarf ýmsum skilyrðum að vera fullnægt svo að rafræn birting komi til álita.

Fyrirkomulag rafrænnar birtingar þarf í fyrsta lagi að taka mið af því að búnaður sem flestra nýtist. Þeim sem ekki geta nýtt sér upplýsingatæknina verði gert kleift að nálgast lögin með hefðbundnum hætti, þ.e. í prentuðu formi.

Í öðru lagi þarf rafræn birting að vera svo örugg að ekki fari á milli mála hvaða lög gilda á hverjum tíma. Um þessi atriði og fleiri vísast að öðru leyti til greinargerðar með frumvarpinu.

Aðrar efnisbreytingar sem felast í frumvarpinu eru eftirfarandi:

Lagt er til að birting á EES-reglum og öðrum þjóðréttarreglum, sem leiða þarf í landsrétt, verði gerð skilvirkari þannig að nægilegt sé við innleiðingu þeirra að vísa til birtingar þeirra í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB eða í C-deild í stað þess að birta þær jafnhliða í A-deild eða B-deild Stjórnartíðinda eftir atvikum.

Þá er lagt til að heimilað verði í undantekningartilvikum að birta þjóðréttarreglur á erlendu máli, en heimildin er bundin því afdráttarlausa skilyrði að viðkomandi samningur varði afmarkaðan hóp manna sem með sanngirni má ætlast til að skilji hið erlenda tungumál vegna menntunar sinnar eða annarrar sérhæfingar.

Loks er lagt til að tekið verði af skarið um gildistöku birtra fyrirmæla í lögum og að kveðið verði sérstaklega á um að birt fyrirmæli skuli binda alla frá og með deginum eftir útgáfudag þeirra ef þau geyma ekki aðrar ákvarðanir um gildistöku sína.

Að öðru leyti felur frumvarpið í sér einföldun á orðalagi og efnisskipan, eða skýringar á atriðum sem talin hafa verið felast í gildandi lögum um birtingu laga og stjórnvaldserinda, nr. 64/1943, með síðari breytingum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.