Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað

Mánudaginn 18. október 2004, kl. 17:09:11 (578)


131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

191. mál
[17:09]

Örlygur Hnefill Jónsson (Sf):

Frú forseti. Hér mælir hæstv. dómsmálaráðherra fyrir merku nýmæli í því hvernig birta á þegnunum þá löggjöf eða þær reglur sem þegnunum ber að fara eftir. Það má auðvitað líta á þetta í samhengi allt frá þjóðveldisöld þegar lög voru kynnt af lögsögumanni og var þá bara úr munni og höfði þess manns. Síðan gerist það með prentuðu máli að þetta er bætt og er aðgengilegra. Nú er kominn þriðji birtingarmátinn sem er mjög merkur og í takt við þá tækni sem menn ráða yfir í dag, að birta þetta rafrænt. Þess vegna er það frumvarp sem hæstv. dómsmálaráðherra mælir fyrir í dag barn nútímans og mjög athyglisvert. Auðvitað þarf að gæta að því að sú birting sé nokkuð örugg. Ég veit að tæknin á að sjá til þess af því réttaráhrifin hafa alltaf miðast við það hvenær birtingin fer fram.

Ég tek mjög jákvætt undir málið og það nýmæli sem hæstv. dómsmálaráðherra mælir hér fyrir og tel að það muni horfa til bóta fyrir réttaröryggið af því að með fullri virðingu fyrir Stjórnartíðindum í því formi sem þau eru gefin út í dag og dreifingu þeirra, er ekki ólíklegt að rafræn birting verði enn aðgengilegri fyrir þegna landsins. Ég lýsi stuðningi við það frumvarp sem hér er flutt.