Þróun verðbólgu og forsendur kjarasamninga

Fimmtudaginn 04. nóvember 2004, kl. 13:56:36 (1010)


131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Þróun verðbólgu og forsendur kjarasamninga.

[13:56]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það er full þörf á því að hafa áhyggjur af þróun efnahagsmála. Það er gífurlegur viðskiptahalli og hækkandi verðbólga. Það eru ekki einungis verðbólguvæntingar sem eru að hækka, heldur verðbólgan sjálf. Verðbólgan er mun meiri en gert var ráð fyrir í markmiðum ríkisstjórnar í síðustu fjárlögum. Markmið ríkisstjórnar nú er að verðbólgan verði 3,5% á næsta ári. Ýmsar aðgerðir ríkisstjórnarinnar vinna gegn því markmiði. Þá vil ég fyrst nefna skattalækkanirnar, sérstaklega þær sem ná eingöngu til þeirra sem eru tekjuhærri. Skattalækkanir munu án efa auka peningamagn í umferð, sem er þensluhvetjandi.

Eina leiðin til þess að skattalækkun sé raunhæf er að til sé innstæða fyrir henni. Það er gert með aðhaldi í ríkisfjármálunum. Því miður sjást þess ekki nein merki í fjárlögum fyrir næsta ár. Það er mikið áhyggjuefni.

Á hverjum mun verðbólgan bitna? Hún mun fyrst og fremst bitna á þeim sem skulda. Minni fyrirtækjum og heimilunum í landinu og sérstaklega þeim sem eru að fjárfesta í húsnæði. Oft er barnafólk að fjárfesta í æ dýrara húsnæði. Það er verulegt áhyggjuefni. Ég tel að við á hinu háa Alþingi ættum að beita öllum ráðum til þess að vinna bug á verðbólgunni.

Það er óvíst að sú leið sem ríkisstjórnin ætlar að fara, að skilja Seðlabankann einan eftir með vandann og helsta tæki hans er að hækka stýrivexti, muni duga, því miður. Það mun einungis ná til heimilanna en ekki til bankakerfisins, sem fjármagnar sig í síauknum mæli erlendis frá, og stærri fyrirtækja. (Forseti hringir.) Ég tel að ríkisstjórnin verði að gera sitt til að halda (Forseti hringir.) friði á vinnumarkaði.