Fæðingar- og foreldraorlof

Fimmtudaginn 04. nóvember 2004, kl. 16:27:43 (1036)


131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Fæðingar- og foreldraorlof.

22. mál
[16:27]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Þetta frumvarp hefur áður verið flutt og varð þá eigi útrætt. Frumvarpið var sent ýmsum aðilum til umsagnar, bæði samtökum launafólks og einnig atvinnurekendasamtökum. En þannig fór að allar umsagnir verkalýðshreyfingarinnar, þ.e. frá Starfsgreinasambandinu, BSRB og Kennarasambandi Íslands, voru mjög jákvæðar. Jafnframt kom fram að Alþýðusamband Íslands tæki eindregið undir efni frumvarpsins og vildi láta reyna á það álitamál sem frumvarpið fjallar um fyrir dómstólum.

En áður en lengra er haldið ætla ég að reifa efni frumvarpsins sem ég hefði náttúrlega átt að byrja á að gera. Það gengur út á að einstaklingar sem fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði meðan á fæðingarorlofi stendur njóti einnig greiðslna úr þeim sjóði í orlofi, í sumarleyfi sínu.

Við sem stöndum að þessu frumvarpi, ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, viljum ekki sætta okkur við að fólk á almennum vinnumarkaði verði af þessum réttindum. Hjá hinu opinbera, bæði ríki og sveitarfélögum, hefur náðst samstaða um það milli verkalýðshreyfingar, milli samtaka launafólks annars vegar og atvinnurekenda hins vegar, að semja um slíkar greiðslur þannig að fólk fái tryggð þessi réttindi í orlofi.

Við höfum bent á að það gæti ekki hafa verið markmið eða hugsun löggjafans á sínum tíma að skapa réttindi sem ætu upp önnur réttindi þannig að fólk sem fari í fæðingarorlof eigi ekki rétt á sumarorlofi fyrir vikið. Það getur ekki hafa verið tilgangur löggjafans. Enda fór og svo þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir beindi spurningum til hæstvirts þáverandi félagsmálaráðherra um þetta efni í þingsal að fram kom í ræðustól að þetta væri ekki hugsunin og reynt yrði að sjá til að Fæðingarorlofssjóður greiddi slík orlofslaun.

Þetta fór síðar til úrskurðar hjá aðskiljanlegum aðilum. Niðurstaðan var sú, sem síðan var staðfest í undirrétti, að fólki bæri ekki þessi réttur, einvörðungu rétturinn til að fara í orlof en ekki til þess að fá greiðslu í orlofi. Ég geri ráð fyrir að Alþýðusambandið láti enn reyna á þetta fyrir dómstólum en við viljum hins vegar taka af öll tvímæli í þessum lögum. Það er ágreiningur um túlkun laganna, það er alveg ljóst, en ráðherrar hafa gefið yfirlýsingar sem styðja málstað okkar mjög. Nú viljum við láta reyna á hvort ekki er þingvilji til að taka af tvímæli í þessu efni.

Ég legg til að þetta frumvarp fari til umfjöllunar í félagsmálanefnd þingsins og fái þar skjóta og vonandi jákvæða afgreiðslu.