Lífeyrissjóður sjómanna

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 14:38:36 (2961)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lífeyrissjóður sjómanna.

376. mál
[14:38]

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd um frumvarp til laga um afnám laga nr. 45/1999, um Lífeyrissjóð sjómanna, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Pál Gunnarsson frá fjármálaráðuneyti. Umsagnir um málið bárust frá Landssamtökum lífeyrissjóða og Lífeyrissjóði sjómanna.

Í frumvarpinu er lagt til að lög nr. 45/1999, um Lífeyrissjóð sjómanna, verði afnumin frá og með 1. janúar nk. og að lífeyrissjóðurinn starfi frá þeim tíma á grundvelli laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Í umsögn Lífeyrissjóðs sjómanna kemur fram að sjóðurinn hefur leitað eftir því að lögin verði felld úr gildi og stjórn sjóðsins styðji málið. Landssamtök lífeyrissjóða mæla einnig með afnámi laganna.

Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að tryggt sé talið að sjóðsfélagar glati ekki réttindum við breytinguna.

Nefndin leggur til að málið verði samþykkt óbreytt.

Gunnar Birgisson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita Pétur H. Blöndal, Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson, Siv Friðleifsdóttir, Ögmundur Jónasson, með fyrirvara, og Einar Már Sigurðarson.