Lífeyrissjóður sjómanna

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 14:40:05 (2962)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lífeyrissjóður sjómanna.

376. mál
[14:40]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það var rétt sem fram kom í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals að bæði stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna og Landssamband lífeyrissjóðanna mæla með því að frumvarpið verði samþykkt, að sérlögin verði numin úr gildi, en ástæða þess að ég er með fyrirvara er sú að ég vildi nota þetta tækifæri til að vekja athygli á því að ríkisvaldið hefur í rauninni aldrei staðið við skuldbindingar sínar hvorki gagnvart lífeyrissjóðnum né sjómönnum.

Lífeyrissjóður sjómanna hefur átt í miklum erfiðleikum og eru ýmsar ástæður fyrir því. Örorka er mjög mikil í röðum sjómanna og hefur það valdið því að byrðarnar á þann lífeyrissjóð eru þyngri en gerist almennt hjá öðrum lífeyrissjóðum og hefur það leitt til þess að lífeyrisréttindi sjómanna hafa aftur og ítrekað verið skert með lögum og hefur mörgum sjómanninum og landsmanni sviðið að horfa upp á það, ekki síst í ljósi þess að samtök sjómanna hafa talið og fullyrt að ríkisvaldið hafi aldrei staðið við skuldbindingar sem gefnar voru í tengslum við kjarasamninga upp úr 1980. Þá voru gerðir kjarasamningar þar sem fyrirheit voru gefin um að komið yrði til móts við sjómenn með því að styrkja lífeyrissjóð þeirra. Um þetta hafa oft farið fram umræður á Alþingi. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, flutti þingmál sem lýtur að því að styrkja Lífeyrissjóð sjómanna og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum tekið undir málflutning hans. Ég vildi aðeins nota tækifærið nú til að árétta sjónarmið okkar hvað þetta snertir.