Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 10:11:48 (3085)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:11]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það verður að fagna því að hv. þm. missti sig ekki í sama æsinginn og um daginn. Fögnuðurinn var gífurlegur og hann fór hina mestu skógarferð sem ég hef heyrt lýst hér frá þessum ræðustól.

Það er augljóst mál að þrátt fyrir að það hafi verið reglulega rifjað upp fyrir hv. þingmanni hvernig tekjuaukning ríkissjóðs hefur verið á undanförnum árum, þ.e. með hækkun gjalda og hækkun ýmiss konar skatta, að nú sé verið að hefja dreifingu þess aukaarðs sem borist hefur í ríkissjóð, virðist hv. þm. enn fara villur síns vegar. Það er eiginlega nauðsynlegt að rifja upp fyrir hv. þingmanni þó að ekki sé nema hið merka línurit sem hv. þm. bað sjálfur um og fékk úr fjármálaráðuneytinu sem sýnir þróun persónuafsláttarins, sýnir hvernig ríkissjóður hefur tekið inn stórauknar tekjur, alveg sama hvort miðað er við neysluverðsvísitölu eða launavísitölu. Það sem er merkast við þetta litla línurit — hv. þingmaður hefur trúlega vitað það þegar hann bað um það en hefur áttað sig á því að við höfum ekki nýtt okkur þetta vopn nægjanlega — er að þessi viðskilnaður línanna verður nákvæmlega um mitt ár 1995 þegar ríkisstjórnin sem hann styður tók við völdum.

Það er ekkert skrýtið þó að hv. þingmaður upplifi sig nú í því að vera að mæla fyrir mjög félagslega réttlátum tillögum, þ.e. miðað við þann heim sem hann lifir greinilega í. Hið félagslega réttlæti hv. þingmanns á greinilega við það að það megi sækja fjármunina til allra en dreifa þeim síðan mismunandi. Þá er það augljóslega hópurinn sem hv. þm. ber fyrst og fremst fyrir brjósti sem á að fá fjármunina, enda liggur það alveg ljóst fyrir. Allt sem hv. þm. taldi upp, líka þegar hann var að lýsa framtíðarsýn sinni um allar þær breytingar sem gerðar hafa verið, að það er afskaplega misjafnlega skipt og það er augljóslega meginniðurstaða þess að þeir sem mikið hafa fyrir eiga að fá enn meira.