Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 10:13:52 (3086)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:13]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Niðurlútu mennirnir ganga um skóginn, finna visnuð laufblöð hér og þar og halda þeim á lofti. Þannig er nú það. Hv. þm. nefnir persónuafsláttinn. Hann hefur vissulega ekki hækkað en það er ástæða fyrir því. Þegar tekjuskatturinn var lækkaður úr 42% niður í 38% var persónuafslátturinn lækkaður sömuleiðis til að halda frítekjumarkinu. Það er frítekjumarkið sem skiptir máli, það eru þær tekjur sem menn mega hafa án þess að borga af þeim skatta og þær hafa haldið nokkurn veginn verðgildi sínu, nokkurn veginn. (Gripið fram í: Nei, nei.) Jú, þær hafa gert það, (Gripið fram í: Nei, nei.) vissulega og alveg sérstaklega þegar maður tekur inn í dæmið að iðgjald í lífeyrissjóð hefur með áföngum verið gert skattfrjálst. Það eykur enn frítekjumarkið.

Þegar þetta er tekið saman, lækkun skattprósentunnar og skattfrjálst iðgjald í lífeyrissjóð, hefur frítekjumarkið nokkurn veginn haldið verðgildi sínu miðað við neysluvöru en að sjálfsögðu ekki miðað við laun. Launin hafa hækkað í þessu þjóðfélagi sem í engu öðru þjóðfélagi hér í kring vegna þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur gert í því að örva atvinnulífið með breytingum sem ég nefndi áðan.