Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 10:15:16 (3087)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:15]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er augljóst mál að hv. þingmaður er svo rammvilltur í skóginum að ég efast um að ég nái að beina honum á rétta leið. Við skulum vona að hann skili sér fyrir jól.

Þannig er, hv. þingmaður, að þrátt fyrir að þú gerir enn einu sinni tilraun til að nefna einhverjar aðrar viðmiðanir hélt ég að ég hefði farið sæmilega yfir þetta fyrir hv. þingmann hér í gær. Það dugar ekki heldur að miða við skattleysismörkin. Það er búið að skoða það líka og það munar engu minnu þar þegar það er skoðað.

Við skulum rifja þetta enn einu sinni upp og við skulum bara taka, a.m.k. fyrst, tímabilið sem ríkisstjórnin hefur setið sem nú er við völd, þ.e. tímabilið 1995–2004. Þá kemur í ljós að ef skattleysismörkin eru miðuð við launavísitölu, við skulum byrja þar, ættu þau að vera 114.015 kr. á mánuði en eru 71.269. Þarna munar á mánuði 42.746 kr.

Ef við miðum hins vegar við neysluverðsvísitölu sem hv. þingmaður í nauðvörn sinni virðist vera að hrekjast til ættu skattleysismörkin að vera við 85.709 en ekki eins og þau eru nú, 71.269, og mismunur upp á 14.440. (Gripið fram í.) Já, það er rétt, hv. þingmaður, að rifja það enn einu sinni upp að allt þetta talnasafn okkar byggir á heimildum frá fjármálaráðuneytinu.

Ef við notum síðan þumalputtaregluna sem menn hafa verið að reyna að nálgast um það hvað þetta þýðir fyrir ríkissjóð þýðir viðmiðunin við launavísitölu að ríkissjóður hefur fengið rúmlega 40 milljörðum meira miðað við þessi viðmið. Ef við notum neysluverðsvísitöluna eru þetta tæpir 15 milljarðar. Hv. þingmaður, er ekki kominn tími til að þú viðurkennir að menn eru bara að dreifa því sem áður hefur verið í náð?

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli á því að samkvæmt þingsköpum ber að beina máli sínu til forseta eða fundarins en ekki ávarpa einstaka þingmenn.)