Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 10:18:56 (3089)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:18]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur margsinnis lýst því yfir að hann telji ekki að skattkerfið eigi að leiða til aukins jöfnuðar. Þess vegna er eðlilegt að hann skuli fagna og ljósta upp höndum í fagnaðarlátum vegna þess að þær breytingar sem hér er verið að gera leiða til gríðarlegs ójöfnuðar. Þær leiða t.d. til þess að stórbankastjórinn fær í krafti þessara skattalækkana sem ríkisstjórnin er að leggja fram 25 sinnum meira í sinn vasa en ræstingakonan sem þrífur skrifstofuna hans. Eðlilega er þetta hamingjufrumvarp heldri mannanna og þess vegna er eðlilegt að hv. þingmaður fagni svona eins og hann gerir.

Það er þó ýmislegt sem hv. þingmaður nefndi ekki. Hann gat náttúrlega ekki um ójöfnuðinn sem af þessu hlýst en hann gat heldur ekki um það hvernig á að fjármagna skattalækkanirnar. Hv. þm. Pétur H. Blöndal gleymdi meðvitað að geta um feluskattana sem hann og stjórnarliðið hefur dag eftir dag verið að troða í gegnum Alþingi. Feluskattarnir sem eru samtals milli 15 og 20 talsins gera það að verkum að þegar hv. þingmaður slær korktappa úr kampavínsflöskunni í lok næsta árs og fagnar því að árið 2005 er liðið í aldanna skaut hefur hann séð til þess að ríkissjóður hefur innheimt meira fjármagn í formi hækkaðra skatta en hann hefur látið frá sér í formi skattalækkana.

Þetta eru sjónhverfingar. Hér er Sjálfstæðisflokkurinn að nota blekkingar til þess að reyna að kaupa sér atkvæði fyrir næstu kosningar. Það er sláandi að allar mestu lækkanirnar koma ekki fyrr en rétt fyrir kosningar. Þetta er ekkert annað en ódýr brella til að kaupa sér atkvæði og það er verið að hækka skatta núna til að fjármagna þessar skattalækkanir.