Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 10:54:23 (3094)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:54]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get verið afskaplega stuttorður. Ég vil eingöngu leiðrétta þau ósannindi sem fram komu í máli þingmannsins hvað varðar þann umræðuþátt í sjónvarpi sem við tókum þátt í nýlega. Ég kallaði hér fram í og sagði að þingmaðurinn færi rangt með. Hann gerði það, ég er með útskrift af viðtalinu.

Stjórnandi segir: „Eru það framsóknarmenn sem stoppa þetta?“ — þ.e. lækkun matarskattsins. Ég svara í þættinum: „Nei, það er ekki hægt að kenna neinum um, það er ekki heiðarlegur málflutningur,“ segir hér í útskriftinni.

Síðar segir: „Eru það þá framsóknarmenn sem í rauninni eru að stoppa þetta?“ Og ég segi: „Nei, ég segi ekki neitt um það. Við erum að leita að heppilegri leið til að komast til botns í málinu.“ — Eins og fram hefur komið liggur það fyrir að við ætlum að setja nefnd á laggirnar til að vinna í þessu máli.

En ég skil ekki hvað þessum hv. þingmanni gengur til þegar hér er verið að ræða stórt og mikið skattafrumvarp að hanga á einhverju svona atriði í málefnaþroti sínu. Hvað á þetta eiginlega að þýða, hv. þingmaður? (Gripið fram í.) Það er ekki heiðarlegur málflutningur (Forseti hringir.) að bera þetta hér fram eins og gert hefur verið í þessu efni.