Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 10:56:57 (3096)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:56]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum hér í þessi ómerkilegheit sem hér hefur verið flett ofan af. Ég hélt að þingmaðurinn hefði nóg annað fram að færa af sinni miklu visku og þekkingu um skattamál en að afbaka og snúa út út ummælum sem fallið hafa.

En hver var afstaða Samfylkingarinnar til lækkunar matarskattsins? Ég upplýsti það hér fyrir nokkru og hef síðan gert. Framsóknarflokkurinn var spurður að því og Samfylkingin var spurð að því og allir flokkar voru spurðir að því. Samfylkingin sagði: Nei, við viljum engu breyta.

Ég spurði hv. þingmann að þessu í sjónvarpinu. Hann sagði: Ég held að það hafi verið einhver símastrákur hjá Samfylkingunni sem var spurður að þessu með virðisaukaskattinn. Það kannast enginn við að hafa svarað þessu. Ég man ekki eftir þessu, sagði þingmaðurinn.

Þetta eru nú vinnubrögð í lagi, herra forseti. (Gripið fram í.) Þeir sitja í háum söðli sem telja sig geta skammað aðra með þetta á bakinu. (LB: Er þessi maður að tala um …?)