Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 11:00:43 (3099)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[11:00]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Skattstefna Sjálfstæðisflokksins breyttist á landsfundi hans í mars fyrir kosningar. Skattstefna Samfylkingarinnar breyttist á vorþingi hennar í apríl fyrir kosningar. Það má vel vera að það svar hafi fengist frá skrifstofu Samfylkingarinnar að menn vildu ekki hreyfa við virðisaukaskatti á matvælum einhvern tíma í fyrri parti kosningabaráttunnar en hitt er alveg klárt að þegar kom á vorþing Samfylkingarinnar var lögð mikil áhersla á þrjú mál. Það var lækkun matarskatts um helming, hækkun barnabóta og hækkun skattfrelsismarka. Það var þetta þrennt sem áhersla var lögð á. Tvennu af þessu erum við núna með atkvæðum okkar síðar í dag að ljá fylgi.

Það er síðan rangt hjá hv. þm. Sigurði K. Kristjánssyni að það séu fyrst og fremst þeir lægstlaunuðu eða láglaunuðu sem njóta þessa eins og mér heyrðist á hv. þingmanni. Staðreyndirnar tala allt öðru máli og það er einfaldlega þannig að ofurforstjórinn sem hefur 1,9 millj. á mánuði — það eru 200 slíkir menn á Íslandi — fær 2,7 millj. kr. skattalækkun á ári. Ræstingakonan fær 7.900 kr. á mánuði.