Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 11:02:16 (3100)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[11:02]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég var bara að varpa ljósi á það að þær skattalækkanir og skattalækkunartillögur sem við erum hér með og ætlum að lögfesta nýtast venjulegu fólki. Þær nýtast kennarahjónum með tvö börn mjög verulega. Ráðstöfunartekjur þeirra aukast um 392 þús. kr. á ári, og á móti þessari breytingu er hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Svo kemur hann hér upp og fer að gagnrýna ríkisstjórnina og okkur stjórnarliða fyrir að vera að hækka skatta.

Af hverju snýr maðurinn sér ekki í átt að Ráðhúsinu þar sem hans fólk ræður nú ríkjum og hefur verið að hækka skatta á Reykvíkinga, þessi 1. þm. Reykv. n.? Flokksmenn hans í Ráðhúsinu standa að því að hækka útgjöld, þ.e. lækka ráðstöfunartekjur Reykvíkinga, t.d. fjölskyldna þar sem annað foreldra er í námi, með tekjur upp á 265 þús. kr. á mánuði og tvö börn í leikskóla. Ráðstöfunartekjur þessa fólks lækka um 164 þús. kr. á ári. Af hverju gagnrýnir hv. þingmaður ekki þessa skattahækkun?