Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 11:03:39 (3101)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[11:03]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður fór með tölur sem vörðuðu kennara. Þær tölur gilda ekki um t.d. unga kennara sem eru með 170 þús. kr. á mánuði. (Gripið fram í.) Það sem hv. þm. er að færa þeim jafngildir í lok næsta árs einum góðum Pampers-bleyjupakka og ég er viss um að sá bleyjupakki kemst í góð not á ýmsum heimilum. Það breytir ekki hinu að þetta er um það bil einn tíundi af því sem sumir aðrir fá í skattalækkanir á sama tíma. Þetta er dæmi um ójöfnuðinn. Þetta er dæmi um þann feikilega ójöfnuð sem kemur fram í þessum tillögum og það er aðalsmerki þeirra. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru að ýta undir gliðnunina í samfélaginu með þessum tillögum í staðinn fyrir að reyna að auka jöfnuð.

Útsvarshækkanir Reykjavíkurborgar — ég lýsi allri ábyrgð á þeim á hendur ríkisstjórninni sem hefur sett sveitarstjórnir þessa lands í fjársvelti.