Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 11:08:20 (3105)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[11:08]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi villst í skóginum og sé hættur að sjá hann fyrir trjám. Hann er hættur að sjá það sem sennilega er hægt að kalla lítinn skóg frumvarpa sem hér er að spretta upp í þinginu sem öll hafa eitt samkenni. Í þeim er verið að hækka ýmsa skatta, með þeim er verið að koma í gegn laumusköttum, felusköttum, og ég taldi fyrr í dag upp 16 skatta þar sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru að koma í gegn ýmist nýjum sköttum, eins og í gær, eða hækka gamla skatta.

Þegar maður telur saman hve mikið er verið að taka með þessum sköttum kemst maður að því að það eru rífir 8 milljarðar fyrir lok ársins 2005 og það er ívið meira en fólkið fær til baka í skattalækkunum. Ef hv. þingmaður skilur þetta ekki er hann sennilega dottinn með andlitið ofan í hinn græna svörð skógarins.