Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 12:00:52 (3111)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[12:00]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður gerði, að mér fannst, frekar lítið úr breytingum okkar á barnabótum. Hann sagði þó að þær væru verulega til bóta. Ég þakka sérstaklega fyrir það. Það fara 5,4 milljarðar kr. í barnabæturnar í dag. Það á að hækka þessar bætur um 2,4 milljarða kr. Þær munu stórefla stöðu barnafólks í samræmi við þá hugmyndafræði sem við höfum stutt og fleiri stjórnmálaflokkar, þ.e. að gera betur við barnafjölskyldur, hækka bæturnar og minnka áhrif skerðingarmarkanna sem menn hafa lifað við um skeið. Þeir sem hafa tekjur verða fyrir minni skerðingu á barnabótunum og það er geysilega mikilvægt.

Tímasetningar skattalækkananna hafa verið gagnrýndar, þ.e. að þær komi í lok kjörtímabilsins. Það er einmitt mjög brýnt að þær komi þá vegna þess að þá minnkar þenslan af stóriðjuframkvæmdunum fyrir austan, framkvæmdum sem Vinstri grænir eru reyndar á móti. Það er því skynsamlegt að tímasetja skattalækkanirnar eins og við erum að gera.