Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 12:04:42 (3114)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[12:04]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég óttast að skattalækkanirnar valdi því að við lendum í sveiflum þegar upp er staðið. Þessar skattalækkanir eru að hluta réttlættar með uppsveiflunni, að veltuáhrif í efnahagskerfinu og valdi því að tekjur ríkissjóðs muni aukast. Þegar dregur hins vegar úr hagvexti, sem hugsanlega getur gerst þótt vonandi gerist það ekki, þá sitjum við uppi með lægra skattstig og eigum erfiðara með að fjármagna samneysluna. Ég hef bent á þetta samhengi auk þess að benda á þær áhyggjur sem mörg okkar hafa af því að ríkisstjórnin hyglar hátekjufólki og stóreignafólki langt umfram það sem gerist gagnvart lágtekju- og millitekjuhópum.