Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 12:05:44 (3115)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[12:05]

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson er þekktur fyrir að berjast fyrir bættum hag launafólks. Hann hefur gert það ágætlega. Hann hefur hins vegar lýst því að hann sé ósammála þeirri leið sem ríkisstjórnin og meiri hluti Alþingis stendur nú fyrir með skattalækkunum, sem sannarlega munu bæta hag almennings og þess launafólks sem hann hefur barist fyrir.

Á síðustu dögum hafa greinar birst í blöðunum um hvernig skattalækkanirnar muni hafa áhrif á hag launafólks. Þar kemur fram að forsvarsmenn aldraðra meta það svo að skattalækkanir muni bæta hag aldraðra þannig að kaupmáttur þeirra aukist um 9–12,5%. Inn í þá tölu er ekki tekinn eignarskatturinn en það hefur verið sýnt fram á að bara eignarskatturinn mun auka ráðstöfunartekjur aldraðra verulega. Einstaklingur eða hjón sem eiga 20 millj. kr. íbúð borguðu 180 þús. kr. í eignarskatt þegar hann var 1,2%. Þetta fer niður í 0 krónur. Það munar um 180 þús. kr. fyrir aldraða á ári.