Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 12:09:19 (3118)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[12:09]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég óska eftir og hvet til þess að við skoðum þessi mál heildstætt með tilliti til tekna, tekjustofna sveitarfélaga og ríkisins líka. Ég er ekki sammála orðavalinu hjá hv. þingmanni þegar hún segir að ríkið komist með krumlurnar í vasa skattborgara. Við þurfum að skoða heildstætt og spyrja til hvers þær krónur eru notaðar. Þær eru notaðar til að reka gott heilbrigðiskerfi. Við eigum sem betur fer eitt vandaðasta og besta heilbrigðiskerfi í heiminum. Við höfum aukið gjaldtöku þar. Það hefur verið gagnrýnt en eftir stendur mjög gott og vandað heilbrigðiskerfi. Til þess m.a. eru fjármunirnir notaðir.

Mér finnst það áhyggjuefni að í heilbrigðisstofnunum í landinu öllu eru deildir víða undirmannaðar vegna fjárskorts vegna þess að „krumla ríkisins“ hefur væntanlega ekki komist nægilega djúpt í vasa skattborgarans. Nú erum við að fjalla um frumvarp sem dregur úr möguleikum til að reka þá þjónustu.