Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 12:12:08 (3120)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[12:12]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eigum við ekki að óska svolítið fleira fólki til hamingju? Til dæmis hátekjufólkinu, þeim einstaklingi sem er með 1 millj. kr. í mánaðartekjur. Hann fær í gjöf frá ríkisstjórninni 1 millj. kr. á ári, bara vegna tekjuskattslækkunarinnar. Eigum við ekki að óska þessum aðilum til hamingju líka? Eigum við ekki að fara svolítið varlega í að óska samfélaginu til hamingju með hvernig árar í þjóðarbúskapnum?

Staðreyndin er sú að íslenska þjóðarbúið er við það að slá heimsmet í skuldum. Við erum þriðja skuldsettasta þjóðarbú í heimi á eftir Finnlandi og einkavæðingarmönnunum á Nýja-Sjálandi, þá kemur Ísland. Er ekki ástæða áfram til að skoða málið dálítið heildstætt, eins og hv. þm. Ásta Möller lagði til áðan?