Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 12:13:13 (3121)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[12:13]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sannarlega megum við óska íslensku samfélagi til hamingju í dag. Til hamingju með skattalækkanirnar sem við erum að koma í framkvæmd nú um þessar mundir. Þær eru sannarlega ekki gjafir. Við erum að skila aftur til almennings því sem hann á skilið.

Ég vil taka aftur dæmið sem ég var með áðan, af einstaklingi sem einungis hefur ellilífeyri, um 1 millj. kr. á ári, og býr í skuldlausri eigin íbúð sem kostar 20 millj. kr. Fyrir breytingu er tekjuskattur og útsvar 42 þús. kr. og eignarskattur 90 þús. Eftir breytingu, enginn skattur. Árleg aukning ráðstöfunartekna 133 þús. eða 16%. Þessu fólki vil ég sannarlega óska til hamingju með daginn í dag.