Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 12:14:12 (3122)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[12:14]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er fyrst og fremst verið að skila aftur — svo við notum það orðalag, ef það er yfirleitt rétt — fjármunum til þeirra sem hæstar tekjur hafa á Íslandi, stóreignafólks og hátekjufólks. (DrH: Þetta er rangt, Ögmundur.) Þetta er staðreynd. Ég er bara að vísa í útreikninga sem hér liggja fyrir, að milljón króna maðurinn fær í gjöf frá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 1 millj. kr. á ári.

Ég spyr: Þurfum við ekki að horfa til afleiðinganna líka og á hverjum þetta kemur til með að bitna? Þið, hv. þingmenn, setjið alltaf ríkið upp sem einhverja grýlu með krumlur. Við erum að tala um samfélagsþjónustuna. Við erum að tala um Landspítala – háskólasjúkrahús. Við erum að tala um heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni. Við erum að tala um skólana í landinu og hv. þingmenn tala um þetta eins og afl af hinu illa. Við erum að tala um íslenska velferðarkerfið og að einhverju þurfi að skila til baka frá því.