Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 12:16:50 (3124)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[12:16]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að skattahækkanir geti verið nauðsynlegar og geti átt rétt á sér. Við höfum verið með tillögur um, eins og ég gat um áðan, að styrkja beri tekjustofna sveitarfélaganna ef ríkið telur sig vera aflögufært. Ég tel svo reyndar ekki vera. En ef ríkið telur sig aflögufært þá á hins vegar að færa auknar heimildir til sveitarfélaganna til skattahækkana, m.a. til að geta staðið undir velferðarsamfélaginu.

Ég tel að það sé nokkuð sem við eigum að tala um á mjög raunsæjan hátt, að undirstaða blómlegs efnahagslífs er öflug og góð samfélagsþjónusta. Ég minnist þess að danskir atvinnurekendur voru einhvern tímann spurðir hvað þeir teldu skipta mestu máli fyrir það hvar þeir settu fyrirtæki sín niður. Þeir sögðu: Góð barnaheimili, góðir vegir, góðir skólar, elliheimili, sjúkrahús o.s.frv. Þetta þarf allt að vera til staðar til að við getum rekið okkar fyrirtæki. Þetta kostar peninga.