Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 12:19:20 (3126)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[12:19]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Undir það skal sannarlega tekið, að vera þarf eðlilegt samspil þar á milli. En þegar við tölum um verðmætasköpun í samfélaginu þá tel ég að við eigum að setja undir sama hatt það sem er að gerast gott á markaði og í samfélagsþjónustunni, vegna þess að þar eru líka búin til verðmæti.

Við skulum ekki gleyma samspili þessa. Góð samfélagsþjónusta dregur úr nauðsyn þess að hafa launin mjög há. Gott húsnæðiskerfi veldur t.d. því að þar er kominn stuðningur við fólk meðan það er að kaupa sér húsnæði. (Gripið fram í.) Góðar barnabætur eru stuðningur við fólk á meðan það er með börn á framfæri. Hinn kosturinn væri að greiða fólki laun öllum stundum eins og það væri að afla húsnæðis alla ævina, sé með börn á framfæri alla ævina eða með sjúklinga innan fjölskyldunnar alla ævina, alltaf. Í stað þess gerum við þetta sértækt, markvisst, með millifærslukerfinu. Þetta kemur öllum til góða. (Forseti hringir.) Þetta er hagstætt og kemur öllum til góða.