Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 12:21:03 (3127)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[12:21]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við höfum farið vítt og breitt í skattaumræðunni undanfarna daga. Ég ætla að hefja mál mitt á því, virðulegi forseti, að fara yfir þær áherslur sem við í Frjálslynda flokknum settum fram, þær leiðir sem við værum tilbúnir að fara og vildum vinna að ef svigrúm væri til að standa fyrir skattalækkunum í þjóðfélaginu. Við lögðum til í kosningabaráttunni fyrir síðustu alþingiskosningar að áhersla yrði lögð á að nota það svigrúm sem gæfist til að lækka skatta í þjóðfélaginu til að hækka persónuafslátt, fremur en að fara í prósentulækkun á tekjuskatti eins og lagt er upp með í tillögum ríkisstjórnarinnar.

Í annan stað lögðum við til að horft yrði sérstaklega til vanda barnafjölskyldna í landinu og létta á greiðslubyrði þeirra í gegnum skattkerfið. Það er gert að hluta til í áformum ríkisstjórnarinnar og við í Frjálslynda flokknum höfum lýst því yfir að við mundum styðja þær tillögur sem lúta að barnabótum. Við höfum jafnframt bent á, og fluttum um það tillögu ásamt öðrum stjórnarandstöðuflokkum við afgreiðslu fjárlaganna, að gera þyrfti leiðréttingu á fjárlögum svo hægt væri að gera þær breytingar á barnabótunum þegar á næsta ári, árið 2005. Eins og menn muna var sú tillaga felld við afgreiðslu fjárlaganna en við munum styðja tillögur um að barnabæturnar verði hækkaðar þegar á næsta ári við afgreiðslu frumvarpsins sem hér er til umræðu.

Í þriðja lagi höfum við bent á að eðlilegt væri að skoða eignarskattsformið og grunninn fyrir ákvörðunum um hvenær fólk borgar eignarskatta. Við lýstum því yfir í kosningabaráttunni að við vildum gjarnan útfæra eignarskattsformið þannig að frítekjumörkin yrðu hækkuð verulega gagnvart eignarskatti og sérstaklega yrði horft til þess að einstaklingar borguðu ekki eignarskatta af íbúðarhúsnæði og eðlilegri eign fjölskyldu, ef svo má segja. Ef útfæra ætti tillögur í þessa veru, sem færu nálægt þeirri hugsun sem við í Frjálslynda flokknum settum fram, værum við að tala um eignarskattsfrelsi fyrir einstakling af eignum á bilinu 20–25 millj. kr. á ársgrundvelli. Einstaklingar borguðu ekki eignarskatt af eignum á þessu bili og samsvarandi mörk fyrir fjölskyldu væru yfir 40 millj. kr.

Ég tel að með því að útfæra eignarskattsformið með þeim hætti nái menn til eignarforms allra venjulegra fjölskyldna í landinu og þá væri í raun hægt að segja að eignarskattsformið, eða eignarskattsinnheimtan sem væri umfram þær eignir, sneri frekar að þeim sem ættu miklar eignir, að svokölluðum stóreignamönnum. Ég tel að rétt væri að skoða slíka útfærslu á eignarskattinum og að menn stigu aðeins hægar til jarðar en gert er í tillögum ríkisstjórnarinnar. Þar er lagt er til að eignarskatturinn verði afnuminn í einum áfanga. Reyndar á eftir að koma í ljós hvernig það kemur út en ég og flokkur minn teljum eðlilegt að eignarskattur af eðlilegri eign fólks í landinu verði afnuminn. Ég tel reyndar, hæstv. forseti, að sú stefna hafi einnig verið í þeim flokki sem ég var í áður, Sjálfstæðisflokknum. Þar var á árum áður talað um að eðlilegt væri að afnema eignarskatt af eðlilegri eign fjölskyldu. Ég teldi réttlátara að fara þannig í eignarskattsbreytinguna að þessu sinni, stíga varlega þau skref í stað þess að fara í einu stökki eins og hér er lagt til.

Við í Frjálslynda flokknum erum sem sagt hlynnt því að bæta aðstöðu barnafjölskyldna og munum styðja þær tillögur þótt við vildum gjarnan að þær kæmu til framkvæmda þegar á næsta ári, sérstaklega með tilliti til þess hvernig ríkisstjórnin ætlar í skattbreytingarnar. Miðað við áætlunina í þessu frumvarpi munu, að okkar viti, breytingarnar varðandi tekjuskattinn, ég tala nú ekki um ef einnig er litið niðurfellingar hátekjuskattsins, færa verulegar skattalækkanir til þeirra sem hæstar tekjur hafa en mun minni til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar.

Á blaðsíðu 4 í nefndaráliti 2. minni hluta er birt tafla undir yfirskriftinni, með leyfi forseta: „Tekjuskattar og ráðstöfunartekjur fyrir tiltekin laun miðað við einstakling.“ Þar er aftasti dálkurinn gefinn upp í prósentum og talað um að aukning ráðstöfunartekna þess sem hafi 100 þús. kr. í mánaðarlaun verði 7,7%. Aukningin í krónum kemur ekki fram en ætli hún nemi ekki um 80 þús. kr. á ári? Því næst er tekið dæmi af einstaklingi með 300 þús. kr. tekjur. Aukning ráðstöfunartekna hans verður 7%. Ég held að það séu um 280 þús. kr. á ári fyrir einstakling með 300 þús. kr. á mánuði. Þá er talað um mánaðarlaun upp á 700 þús. kr. Í prósentum hefur sá einstaklingur 11,1% aukningu ráðstöfunartekna. Það er nálægt því að vera um 600 þús. kr. á ári. Síðast er tekið dæmi af milljón króna manninum, sem hefur 1 millj. kr. í mánaðarlaun. Samkvæmt töflunni aukast ráðstöfunartekjur hans um 900 þús. kr. á ári.

Það sem við erum að tala um er að 100 þús. kr. maðurinn fái 80 þús. kr. á ári, 300 þús. kr. maðurinn um 280 þús. á ári, 700 þús. kr. maðurinn 600 þús. kr. á ári og milljón kr. maðurinn 900 þús. kr. á ári í auknar ráðstöfunartekjur.

Þessi framsetning leiðir í ljós að með skattalagabreytingunum fá þeir sem hafa hærri tekjur mörgum sinnum meira í vasann til ráðstöfunar en þeir sem hafa lægstu launin. Þetta er stefnumörkun sem við í Frjálslynda flokknum eigum afar erfitt með að sætta okkur við. Við teljum að í meira mæli hefði átt að horfa til þess að hækka persónuafsláttinn til að jafna krónutölum yfir skattgreiðendur í landinu, hífa hlutfallslega hærra upp þá sem lægstar hafa tekjurnar og færa færri krónur til þeirra sem hæstar hafa tekjurnar. Þetta teljum við að væri eðlilegt að gera og erum þar af leiðandi ósammála framsetningu ríkisstjórnarinnar í útfærslu á skattalækkunum í frumvarpinu að því er varðar breytingarnar á tekjuskattsprósentunni, þar sem við teljum að hún nýtist miklu betur þeim sem hafa hærri tekjur, en mun lakar þeim sem hafa lægri tekjur.

Það er því miður svo að persónuafslátturinn á undanförnum árum hefur hvorki fylgt launavísitölunni né neysluvísitölunni. Það hefur verið dregið fram í umræðunni að ef við notuðum eingöngu neysluvísitöluna, en miðuðum ekki við launavísitöluna, hefðu umtalsverðir fjármunir verið teknir í hærri sköttum en annars hefði verið gert, þar sem persónuafslátturinn hefur ekki fylgt neysluvísitölu. Hér er um að ræða mismun á skattleysismörkum, sem nú eru 71.270 kr. ef ég man rétt, og upp í að skattleysismörkin væru þá um 86 þúsund, ef sú viðmiðun væri að persónuafslátturinn hefði fylgt neysluvísitölunni. Þetta hefur auðvitað leitt til þess að skattbyrðin hefur aukist og tekjur ríkisins hafa aukist.

Skattgreiðendum hefur fjölgað og í umræðunni hefur komið fram að m.a. eru tæp 30 þúsund einstaklingar sem greiða tekjuskatt af launum sem eru undir 100 þús. kr. á mánuði. Í þeim hópi eru einnig þeir sem eru á bótum; atvinnuleysisbótum, örorkubótum, ellilífeyrisgreiðslum og tekjutryggingum, sem eru í almannatryggingakerfinu. Þessir aðilar borga tekjuskatt í dag og mér finnst það algjörlega óásættanlegt, hæstv. forseti, að fólk sem er með undir 100 þús. kr. á mánuði í dag greiði tekjuskatt. Útfærslan sem hér er boðið upp á fellur ekki að stefnu Frjálslynda flokksins og um þetta greinir okkur og ríkisstjórnina verulega á.

Miðað við niðurstöður skattálagningar á árinu 2004 eru148 þúsund einstaklingar sem greiða almennan tekjuskatt af 229 þúsund framteljendum. Úr þeim hópi eru tæplega 30 þúsund sem greiða tekjuskatt af minna en 100 þús. kr. tekjum. Það liggur fyrir, hæstv. forseti, að hefði meiri áhersla verið lögð á að hækka persónuafsláttinn, mundu rauntekjur þeirra sem hafa lægstu tekjurnar aukast hlutfallslega, en að sama skapi hefði sú krónutala sem hátekjufólkið fær samkvæmt núverandi útfærslu ríkisstjórnarinnar lækkað.

Miðað við þær tölur sem ég hef fyrir framan mig og hef verið að skoða undanfarna daga sýnist mér að við séum að tala um að 1% í tekjuskattsprósentu þýði 4 milljarða. Þá væri hægt að hækka persónuafsláttinn einan og sér miðað við þá upphæð og miðað við hvernig skattdreifingin er, m.a. hjá þeim sem lægri hafa tekjurnar og gætu kannski ekki nýtt persónuafsláttinn að fullu — það fer eftir hversu lágan skatt þeir greiða af tekjum undir 100 þúsundum — en mér sýnist að að meðaltali væri hægt að hækka persónuafsláttinn fyrir hverja 4 milljarða um 2.500 kr. á mánuði. Það mundi jafngilda því nokkurn veginn að setja út í skattalagabreytingar þá 4 milljarða sem verið er að setja út með þessu eina prósenti sem gert er í tekjuskattinum. Nú ætla ég ekki að halda því fram að þetta séu nákvæmir útreikningar en mér sýnist þetta ekki vera fjarri lagi.

Ef við hefðum sett okkur að reyna þannig að hækka frádráttinn með persónuafslættinum hlutfallslega meira hjá fólki sem hefur lægstu tekjurnar en hjá þeim sem hafa hærri tekjur, og hækka þar af leiðandi skattleysismörkin, þá tel ég að við hefðum náð ákveðnum jöfnuði í gegnum skattkerfið. Ég held að niðurstaða mín sé nákvæmlega sú sama og fram kemur í úttekt bæði ASÍ og eldri borgara, en í umsögn Alþýðusambands Íslands sem er fylgiskjal í málinu segir um tekjujöfnunarhlutfall skattkerfisins, með leyfi forseta :

„Sú leið sem valin hefur verið að lækka tekjuskatt um 4 prósentustig, afnema hátekjuskattinn og fella niður eignarskatta, leiðir til að það dregur úr tekjujöfnun skattkerfisins. ASÍ hefur ítrekað kallað eftir því að skattkerfið sé notað með markvissari hætti til tekjujöfnunar. Í því sambandi hefur ASÍ lagt áherslu á að virðisaukaskattur af matvælum verði lækkaður og að dregið verði meira úr skattbyrði lág- og millitekjuhópa en þeirra tekjuhærri. Slíkt má gera með sérstakri hækkun skattleysismarka eða sérstöku skattþrepi á lægri tekjur.“

Við erum algerlega sammála því að nota eigi tekjuskattskerfið til tekjujöfnunar, en ég heyrði á hv. framsögumanni efnahags- og viðskiptanefndar að hann teldi að svo ætti ekki að vera, eða ég gat ekki skilið annað á máli hans. Það liggur því algerlega fyrir, hæstv. forseti, að við í Frjálslynda flokknum höfum svipaða afstöðu til málsins og ASÍ, samtök launafólks í landinu og eldri borgarar.

Þeir segja í ályktun sinni m.a., með leyfi forseta:

„Landssamband eldri borgara og Félag eldri borgara í Reykjavík eru sammála um að sú leið sem ríkisstjórnin hefur valið til þess að verja árlega um 22 milljörðum kr. til skattbreytinga þjóni ekki þeim tilgangi að jafna kjör í landinu, eða stuðla að aukinni velferð.“

Mér finnst þeir taka dálítið stíft til orða varðandi velferðina, því ég hygg að sumt í tillögum ríkisstjórnarinnar, t.d. barnabætur, stuðli að aukinni velferð. En ég er sammála eldri borgurum um að þessar útfærslur muni ekki þjóna því hlutverki að jafna rauntekjudreifinguna í landinu og hækka rauntekjur þeirra sem lægri hafa launin.

Hæstv. forseti. Hv. þm. framsögumaður efnahags- og viðskiptanefndar, Pétur Blöndal, sagði áðan eitthvað á þá leið að það væri hátíðisdagur hjá öllum þingmönnum nema þeim sem vildu nota skatta til tekjujöfnunar, þeim liði illa. Það er sennilega rétt hjá hv. þingmanni að okkur, sem teljum að nú sé tækifæri til og finnst eðlilegt að tekjur þeirra sem lægri hafa launin væru hífðar meira upp en hinna sem hærri hafa launin, okkur líður frekar illa yfir útfærslunni sem ríkisstjórnin leggur upp með.

Ályktun hans er því rétt að þessu leyti. Við erum ekki sátt við hvernig er lagt upp með skattalagabreytingarnar. Í því sambandi vil ég minna á, hæstv. forseti, að á næsta ári á hátekjuskatturinn að lækka um helming frá því sem nú er, og síðan að falla niður.

Ég held að margt væri þarfara gert í þjóðfélaginu nú en að taka sérstaka ákvörðun um það sem gert var með lagasetningu og menn hafa lítið viljað ræða og sagt einfaldlega að búið væri að festa þetta í lög, að fella þetta niður, það hefði verið betra að láta það ógert og láta 4% hátekjuskattinn halda sér en nota frekar það svigrúm sem þar myndaðist til að auka tekjujöfnun fólks í landinu og horfa þá til stöðu barnafjölskyldna. Þar með tel ég að komið hefði grundvöllur til m.a. að taka þegar á næsta ári til við hækkun barnabótanna. Það var jú sú tillaga sem stjórnarandstaðan flutti við afgreiðslu fjárlaganna. Eins og ég hef lýst yfir áður munum við styðja slíka tillögu nú.

Ég vil einnig vekja athygli á því, hæstv. forseti, að ég held að fyllilega sé tímabært hjá stjórnarandstöðunni í heild að koma fram með tillögu um hvernig eigi að taka á eignarskattsbreytingunum. Ég gerði áðan grein fyrir hugmyndum okkar varðandi hvaða viðmiðunarfjárhæða ætti að horfa til varðandi eignarskattsstofn einstaklings, e.t.v. í kringum 20 millj. kr. og um 40 millj. kr. fyrir hjón. Ef slíkt yrði gert kæmi í ljós hvað eftir stæði af eignarskattinum og hverjir greiddu hann. Við værum þá e.t.v. nokkuð nálægt því að horfa til þess að eignarskatturinn væri skattur sem eingöngu legðist á eignir fólks sem hefur verulegra hagsmuna að gæta, væri stóreignafólk ef hægt er að orða það svo. Ég tel eðlilegt að horft væri til þess, hæstv. forseti.

Ég hef áður vikið að skattleysismörkunum. Ég tel að leggja hefði átt meiri áherslu á þau. Ég hef líka nefnt barnabæturnar, að við í Frjálslynda flokknum viljum einnig leggja áherslu á þær. Við erum algjörlega ósammála þeirri útfærslu sem ríkisstjórnin leggur upp með í skattapakkanum og teljum að með henni sé fyrst og fremst hyglað þeim tekjuhærri.

Formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Pétur H. Blöndal, sagði áðan eitthvað á þá leið að menn ættu frekar að horfa til þess að hækka laun þeirra sem lægstu launin hefðu. Ég held að hann hafi tekið dæmið um skúringakonuna. Hann sagði að það þyrfti að hífa skúringakonuna upp í launum svo að hún fengi að njóta þess að hafa afgang, miðað við tillögur ríkisstjórnarinnar. Ég verð að beina mjög einfaldri spurningu til hv. þingmanns. Hún er þessi: Hvað telur hv. þingmaður að laun skúringakonunnar þurfi að hækka mikið svo að hún fari að njóta verulegs ábata af þeim tillögum sem hér eru lagðar fram? Það væri fróðlegt að fá það upplýst miðað við orð hv. þm. um að meginmarkmiðið væri að hækka laun, m.a. skúringafólks, svo að menn hafi ábata af breytingunum.

Það hefur mikið verið rætt hér af hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar að menn væru almennt að tína fölnuð laufblöð og sæju ekki skóginn fyrir þeim. Þar átti hann sérstaklega við það er menn hafa nefnt stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi aðrar tekjur. Það hefur eðlilega verið skoðað hvað ríkisstjórnin gerir í þeim efnum. Einnig hefur verið horft til skattalagabreytinganna sem lögfestar voru á þessu ári og breytinga í ýmsum stofnum, þ.e. með því að auka tekjur hér og þar. Menn kalla það sennilega ekki skattalagabreytingar heldur sérstakar tekjur, hækkun á gjöldum, hækkun á ýmsum svokölluðum aukatekjum ríkissjóðs. Þetta hefur allt verið talið upp og ætla ég ekki að fara yfir það. En niðurstaðan af breytingum á gjöldum, þungaskatti, vaxtabótum o.s.frv., sem hér hefur verið talið upp, er sú að á þessu ári hafa komið inn aukatekjur, og verða einnig á næsta ári, sem eru hærri í milljörðum talið en þær skattalækkanir sem boðaðar eru.

Ég sagði við umræðu um fjárlög á síðasta hausti að ríkisstjórnin væri með tillögum sínum um nýja tekjustofna að afla fjár fyrir fyrirhuguðum skattabreytingum, sem þá voru ekki komnar fram. Fyrirheit um þær lágu hins vegar auðvitað í yfirlýsingum stjórnarflokkanna frá kosningabaráttunni og um þær fjöllum við m.a. í dag.

Niðurstaðan af aðgerðum ríkisstjórnarinnar er fyrst og fremst sú að auka rauntekjur hinna tekjuhærri en hækka álögur á þá sem lægri tekjur hafa með alls konar gjöldum. Með því færist skattbyrðin í landinu til að mínu viti. Þetta er stefna sem við í Frjálslynda flokknum erum ósammála. Ef menn telja að við séum að horfa á fölnuð laufblöð í því sambandi þá verður svo að vera. Niðurstaðan er skýr. Hún hefur verið dregin fram og sett fram í tölum á blöðum. Hún er einfaldlega sú að í gengum álögur er meira tekið inn en boðaðar skattalagabreytingarnar munu gefa í lækkun á næsta ári. Það þýðir því miður að ójöfnuður í tekjudreifingunni eykst.