Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 12:53:05 (3129)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[12:53]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, að það er ekki auðvelt að finna það sem hann orðaði svo að væri eðlileg eign. Nú er það svo að eignarskatturinn er ekki bara lagður á eignir vegna húsnæðis. Hann er lagður á eignir almennt, þ.e. þann stofn sem einstaklingur eða fjölskylda á sem eign, miðað við skattframtal. Vissulega er ekki hægt að fullyrða nákvæmlega um hvar eigi að draga þessa línu. Ég hygg þó að sú tala sem ég nefndi fyrir fjölskyldu, 40 millj. kr., sé ekki óeðlilegt viðmið. Það kæmi jú í ljós eftir fyrstu álagningu, miðað við slíka niðurstöðu, hvað stæði eftir af eignarskattinum og hverjir greiddu hann.

Hv. þingmaður vék að fjármagnstekjuskattinum, að hann væri samspil af eignum og arði af eignum. Það er algjörlega rétt. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að miða við hvernig tekjuskatturinn okkar hefur verið notaður. Í því samhengi er skattur af fjármagni og arði of lágur. Þetta er auðvitað samspil hugmynda og rökræðu, þegar við erum annars vegar að tala um eignarskatt sem ég vil hafa stóreignaskatt, og hins vegar arð af fjármagni, hvar þessi lína á nákvæmlega að liggja.