Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 12:55:16 (3130)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[12:55]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að ef miðað yrði við þau eignamörk sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson nefndi í svari sínu þá yrði harla lítið eftir af eignarskatti sem skattstofni. Ég hef svo sem ekki útreikninga um það en miðað við þær upplýsingar sem borist hafa frá fjármálaráðuneytinu og ríkisskattstjóra þá á þorri þeirra sem greiða eignarskatt eignir undir þessum mörkum.

Annað atriði sem ég vildi nefna varðandi ræðu hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar er umfjöllun hans um skattleysismörkin. Það er rétt að geta þess að í skattalagatillögum ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir breytingum á persónuafslætti upp á við. Þegar upp er staðið held ég að munurinn á þeim hugmyndum og þeim hugmyndum sem hv. þingmaður nefndi áðan sé ekki verulegur. Í breytingunni sem ríkisstjórnin er að leggja til og við alþingismenn samþykkjum vonandi á næsta sólarhring eða svo felst veruleg hækkun persónuafsláttar sem skilar jafnvel þeim lægra launuðu verulegri kjarabót.

Að lokum verð ég að geta þess að ég hlustaði af athygli á ræðu hv. þingmanns við umræðuna og ein spurning kom mjög sterkt upp í huga minn. Hver er í raun munurinn á skattastefnu Frjálslynda flokksins annars vegar og Samfylkingarinnar hins vegar, að svo miklu leyti sem hægt er að festa hönd á skattstefnu Samfylkingarinnar? Ég væri þakklátur ef hv. þingmaður gæti gert mér grein fyrir þeim mun sem er á skattstefnu Samfylkingarinnar annars vegar og Frjálslynda flokksins hins vegar.