Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 12:57:20 (3131)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[12:57]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér virðist síðasta spurning hv. þingmanns gefa tilefni til að ég haldi aðra ræðu seinna í dag. Henni verður örugglega ekki svarað í mjög stuttu máli. Ég held að ég verði því miður að láta hana liggja milli hluta að svo komnu máli. (BÁ: Eitthvað svona sem greinir á milli?) Við höfum ekki nákvæmlega sömu áherslur og Samfylkingin varðandi virðisaukaskattinn þótt við teljum vissulega að hann sé til bóta og betri aðferð en að lækka hátekjuskatt og flata skattalækkun.

Hv. þingmaður sagði að það yrði harla lítið eftir af skattstofninum en þá sé ég ekki hvað væri hættulegt við þær hugmyndir sem við erum að leggja fram. Það væri fróðlegt að sjá hverjir greiddu áfram eignarskatt eftir að búið væri að setja slík mörk í skattkerfið. Ef ég man rétt eru skattleysismörkin, að því er varðar eignarskatt núna, u.þ.b. 4 millj. kr. Ég held að ég fari rétt með það. Samkvæmt þessum tillögum hækkuðum við náttúrlega verulega mörkin varðandi eignarskattinn.

Hv. þingmaður vék að persónuafslættinum. Því hefur verið haldið á lofti að persónuafslátturinn verði hækkaður um 8% samkvæmt þessum tillögum. Þá er jú átt við allt tímabilið, á þremur árum. Hins vegar verður hann hækkaður um 3% á næsta ári. Sé hugarreikningur minn ekki of slakur þá hygg ég að 3% ofan á núverandi persónuafslátt, sem ég held að sé 27.260 kr., hljóti að liggja nálægt 800 kr. Þannig förum við með persónuafsláttinn upp fyrir 28 þús. kr. á næsta ári.