Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 13:04:08 (3134)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[13:04]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fullyrti að skúringakonan gæti orðið verkstjóri og hækkað í launum. Þegar fólk tekur á sig ábyrgð, menntar sig eða eitthvað slíkt er það að leggja eitthvað á sig. Ég hef mjög oft heyrt að fólk segi: Það situr ekkert eftir, bæturnar eru skertar og skattarnir koma til viðbótar. Það situr ekkert eftir, það borgar sig ekki.

Þetta heyri ég mjög oft. Það getur vel verið að hv. þingmaður heyri þetta aldrei en ég heyri þetta oft. Það er þetta sem við erum að minnka. Við erum að minnka þá fátæktargildru sem fólk dettur ofan í og kemst ekki aftur upp úr. Ég vil að þessi títtnefna skúringakona eða skúringakarl geti orðið verkstjóri eða geti farið í nám og hækkað í launum án þess að þeim sé refsað fyrir það. (JÁ: Á enginn að skúra þá?) Það er annað vandamál, þá hækka væntanlega launin í því starfi ef engir fást til að vinna það. Þetta kerfi á að gera fólki kleift að afla sér meiri tekna. Það á að stækka kökuna.

Hv. þingmaður sagði að sjómenn teldu ekki eftir sér að greiða skatta. Hvers vegna í ósköpunum berjast þeir svona fyrir sjómannaafslættinum ef þeir telja ekki eftir sér að borga skatta? Ég veit ekki betur en að þetta hafi nánast stöðvað samninga síðast. Ég held að þeir telji eftir sér að borga skatt eins og allir aðrir. Öllum þykir óljúft að sjá á eftir stórum hluta tekna sinna til ríkissjóðs. Það er bara þannig. Fólk vill nefnilega gjarnan hafa þessar tekjur sjálft og það er miklu betur fært um að ráðstafa þeim en ríkissjóður.