131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Bifreiðagjald.

377. mál
[01:57]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Málið sem nú er á dagskrá er eitt af mörgum málum sem hæstv. ríkisstjórn hefur komið með til að fjármagna þær skattalækkanir sem hún síðan boðar í öðrum málum. Í þessu tilviki er um það að ræða að það á að auka tekjur ríkissjóðs um 120 millj. kr. og hér er því um hreina skattahækkun að ræða.

Frá því að bifreiðagjöld voru lögð á á árinu 1988 hafa þau hækkað um 43% umfram vísitölu neysluverðs þannig að hér er um gríðarlegar hækkanir að ræða og eins og fram kom á fundi efnahags- og viðskiptanefndar m.a. frá forsvarsmanni Félags íslenskra bifreiðaeigenda þá virðist vera sem öll skattlagning á bifreiðar og ökutæki hér á landi sé mjög tilviljanakennd. Þegar maður skoðar skattlagningar, þ.e. beinar og óbeinar tekjur ríkissjóðs af ökutækjum frá árinu 1996 þá kemur á daginn að hækkun á gjöldum á ökutæki frá þessum tíma nemur um það bil 62%. En á sama tíma hefur neysluvísitala hækkað um 32%.

Virðulegi forseti. Það er kannski ástæðulaust að flytja langt mál, mikið eða snjallt um þetta. Hér er aðeins um það að ræða að hæstv. ríkisstjórn er að fjármagna þær skattalækkanir sem hún hefur verið að boða og hv. þm. Pétur Blöndal hefur lýst sem ástæðum hinna hamingjusömu daga eins og hv. þingmaður hefur orðað það. Um leið hefur hv. þingmaður reynt að færa að því rök að skattahækkanir séu skattalækkanir. En hv. þingmaður hefur í sömu umræðu ekki viljað gangast við því varðandi persónuafsláttinn sem hvorki hefur fylgt neysluvísitölu né launavísitölu, að þar sé um skattahækkanir að ræða þannig að það rekst hvað á annars horn í röksemdafærslunni og í sjálfu sér er ekkert við því að gera.

Það hefur hins vegar komið okkur í minni hlutanum á Alþingi dálítið á óvart, og við gerðum okkur ekki grein fyrir því fyrr en þessi skattaumræða fór fram, að hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti hennar gengur út frá því sem vísu að allir gjaldstofnar og skattstofnar sem tryggja ríkissjóði tekjur skuli verðtryggðir meðan bótafjárhæðir og aðrar viðmiðunarfjárhæðir skuli ekki vera það.

Virðulegi forseti. Það er ekki ástæða til að orðlengja þetta frekar. Þessi umræða hefur þegar farið fram og það hefur verið dregið fram mjög skýrt að svona liggur í þessu, svona eru skattalækkanirnar fjármagnaðar, þ.e. með að færa skattana af þeim sem meira mega sín yfir í notendagjöld og tilviljanakennda gjaldtöku af eignum og öðru slíku. Hér er um að ræða bifreiðar. Fyrr í dag ræddum við um skólana. Við höfum einnig talað um komugjöld á heilsugæslu o.s.frv.

Það er ekki ástæða til að orðlengja þessa umræðu virðulegi forseti. En er hins vegar verið gott að þessi umræða hefur kristallað hvert viðhorf hæstv. ríkisstjórnar er til gjaldtöku og skattlagningar í þessu landi.