131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Bifreiðagjald.

377. mál
[02:03]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að þetta er að verða dálítið þreytt umræða og endurtekin. En ég ætla að beina tveimur spurningum til hv. þingmanns. Ég er ekki viss um að önnur þeirra lúti nákvæmlega að því máli sem við ræðum hér en hin gerir það.

Í fyrsta lagi, virðulegi forseti: Er það rétt hjá mér eða rangt að hv. þingmaður hafi oft á tíðum talað fyrir því að ríkið þenji sig ekki út um of, þ.e. að ríkissjóður taki ekki meira til sín en nauðsyn krefur? Ég er ekki frá því að þetta hafi verið eitt af grundvallarsjónarmiðum hv. þingmanns þegar hann kynnti sig til leiks í íslenskum stjórnmálum, að hann væri talsmaður þess sjónarmiðs.

Í öðru lagi, í beinu framhaldi af því: Er það þannig að allir gjald- og skattstofnar skuli vera verðtryggðir? Getur það aldrei komið til að fjárþörf ríkisins minnki? Getur aldrei komið til að ráðdeild og sparnaður í ríkisrekstri geri það að verkum að minni ástæða sé til þess að skattar og gjöld fylgi verðlagsþróun? Kann sá tími að renna upp eða er veruleikinn sá að hv. þingmaður hafi fyrir löngu sagt skilið við þær grundvallarhugsjónir sem hann sagðist standa fyrir þá er hann kynnti sig til leiks í íslenskum stjórnmálum?