131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Bifreiðagjald.

377. mál
[02:20]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er nú verulega skemmtilegt. Þegar menn lenda í rökþroti fara þeir út um víðan völl og tína allt til, meira að segja öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Ég átti von á ýmsu en ekki því. Menn fara mjög vítt um völlinn af því að þá vantar rök.

Ég hef nefnilega grun um það, frú forseti, að hv. þingmaður sé í hópi þeirra hv. þingmanna Samfylkingarinnar sem gjarnan hefðu flutt það frumvarp sem ríkisstjórnin flutti um skattalækkanir. Ég hef grun um að hann vildi gjarnan sjálfur standa að því að fella niður eignarskattinn sem er stórkostleg breyting fyrir íslenskt þjóðfélag. Ég hef grun um að hv. þingmaður hefði líka gjarnan viljað lækka tekjuskattinn og ég hef grun um að hann hefði líka gjarnan viljað hækka barnabæturnar. Ég hef grun um að hv. þingmaður sé einn af þeim þingmönnum Samfylkingarinnar sem hefðu gjarnan viljað samþykkja þetta og flytja frumvarpið helst sem ráðherra, en hann neyðist til þess að vera á móti því og það er sorglegt. Og það eru tínd til visin laufblöð út um allt til að koma með einhver gervirök, meira að segja öryggisráðið.

En ég ætlaði að spyrja hv. þingmann af því að mig langar svo mikið til að heyra hann segja það: Er þetta raunlækkun á þessu gjaldi frá 1. janúar 2002 eða raunhækkun? Vegna þess að um það hefur öll umræðan snúist, a.m.k. fyrst til að byrja með. Nú eru menn að bakka með það sem betur fer. Þeir eru að læra.