131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Bifreiðagjald.

377. mál
[02:22]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man eftir því þegar gömlu vínilplöturnar voru notaðar og nálin og þá gerðist það stundum ef platan var rispuð að hið sama var endurtekið aftur og aftur. Hv. þingmaður minnir mig alveg óskaplega á rispaða plötu. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður hefur ekki svarað þeirri spurningu hvort gjaldstofnar og skattstofnar ríkisins eigi að vera verðtryggðir. Hv. þingmaður hefur hvorki svarað þeirri spurningu né hvenær sú stefnumótun eða sú ákvörðun var tekin að allir skattstofnar og gjaldstofnar ríkisins skuli verðtryggðir. Hv. þingmaður hefur, þrátt fyrir að hafa setið hér og sagst mjög hamingjusamur, fjallað um frumvarpið á þann hátt sem hann hefur gert en komið síðan upp með þann fýlutón sem birtist hér í ræðustólnum. Hann hefur ekki enn þá gert grein fyrir því hvar þessi ákvörðun var tekin eða hvernig eða hvar sú stefnumótun átti sér stað. Hv. þingmaður hefur ekki heldur upplýst okkur um hvar ákvörðunin um skattahækkunina sem af því hlýst að hækka ekki persónuafsláttinn og skattleysismörkin var tekin og hvar sú stefnumótun var ákveðin. Ekkert af þessu. En hv. þingmaður kemur hér aftur og aftur, eins og biluð 33 snúninga plata, og spyr hvort raunlækkun sé raunhækkun eða raunhækkun sé raunlækkun. Það er allt og sumt sem hv. þingmaður hefur lagt til umræðunnar og auðvitað getur maður fyrirgefið hv. þingmanni að hljóma eins og biluð plata þegar klukkan er að verða hálfþrjú að nóttu. En hans vegna, aðeins hans vegna, legg ég til að hv. þingmaður fari að einbeita sér að annarri röksemdafærslu og annars konar ræðum í umræðum hér um skattamál.