131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Bifreiðagjald.

377. mál
[02:24]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spurði hver vegna sú pólitíska stefnumótun hefði verið tekin að verðtryggja krónutölugjöld. Ég held að það sé hreinlega skynsemi, frú forseti, annað er mjög óskynsamlegt vegna þess að annars rýrna gjöldin.

Í eina tíð var það ákveðið með lögum að fjármálaráðherra mátti hækka gjöldin fjórum sinnum á ári í samræmi við hækkun á byggingarvísitölu og hann gerði það. Svo var sú heimild tekin af honum með stjórnarskrárbreytingu 1995 og eftir það eru öll þessi gjöld óbreytt nema þeim sé breytt meðvitað á Alþingi. Og það er bara almenn skynsemi, ef menn ekki vilja láta gjöldin rýrna, að hækka þau öðru hverju í takt við verðbólguna. Þetta er skynsemi en ekki endilega stefnumótun. Svo geta menn tekið markvissa ákvörðun og meðvitaða um að lækka eða hækka gjöld. Til dæmis var um daginn tekin meðvituð ákvörðun um að lækka gjald á léttvíni og bjór með því að hækka það ekki.

Þess hefur verið gætt, bæði af stjórnarandstöðu og ríkisstjórn, að bætur bótaþega væru hækkaðar og þær hafa verið hækkaðar miklu meira en verðlag, þær hafa verið hækkaðar meira en laun þannig að þess hefur verið gætt. Skattleysismörkin, þ.e. þau mörk sem menn geta haft án þess að borga skatta, hafa ef maður tekur tillit til iðgjalda í lífeyrissjóð, 4% iðgjalds, skattfrelsis þess, sem tekið var upp fyrir fimm, sex árum í áföngum, ef maður tekur tillit til þess hafa þau því miður lækkað eilítið miðað við verðlag, en ekki nema eilítið. Með skattalækkununum núna munu skattleysismörkin hækka aftur og ná því marki sem þau voru fyrir 1994 eða 1995. Allt stefnir þetta því til bóta. En hv. þingmaður hefur enn ekki svarað spurningu minni: Er þetta gjald raunhækkun eða raunlækkun frá 1. janúar 2002?