131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Bifreiðagjald.

377. mál
[02:26]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom að því að sú stund rynni upp að ég fagnaði því að hv. þingmaður kæmi í andsvar og lýsti því yfir að ríkisstjórnin væri með fullri meðvitund í öllum þeim skattahækkunum sem hér hafa gengið yfir og talað hefur verið fyrir að undanförnu og ég fagna því mjög, vegna þess að það hefur stundum hljómað eins og hv. þingmenn meiri hlutans væru hálfmeðvitundarlausir þegar þeir hafa verið að ræða þessi mál. Hv. þingmaður lýsti því yfir að þeir hafi verið með fullri meðvitund, þetta hafi verið gert með vitund og vilja og það hafi verið gert með ásetningi að hækka alla þessa skatta til þess að fjármagna skattalækkunarfrumvarpið sem við höfum verið að ræða hér. (PHB: Er þetta skattahækkun eða skattalækkun?)