Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 10:05:09 (3373)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:05]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur misst af gullnu tækifæri til að lækka skatta með þeim hætti að aukið hefði jöfnuð í landinu. Sú skattbreyting sem hér er verið að samþykkja leiðir til aukins ójöfnuðar. Hún færir milljarða í vasa þeirra sem ekki þurfa á milljörðum að halda, hún gefur þeim mest sem mest hafa fyrir, hún gefur þeim minnst sem lítið hafa og í nokkrum tilvikum fá þeir sem allra minnst hafa ekki neitt.

Skattabylting ríkisstjórnarinnar reyndist þegar upp var staðið að stórum hluta vera blekking. Samhliða hefur ríkisstjórnin verið að koma í gegnum þingið fjölmörgum tegundum laumuskatta. Þegar hinir 16 laumuskattar sem hér hafa farið í gegn á þessum vetri eru taldir saman kemur í ljós að ríkisstjórnin er búin að heyja í forða sem dugar til meira en að greiða þann kostnað sem af skattalækkunum hlýst á næstu tveimur árum. Þegar ríkisstjórnin fagnar lokum næsta árs og ætlar að gleðjast yfir skattalækkunum kemur í ljós að hún verður þá búin að hækka laumuskattana um u.þ.b. 8 milljarða en hún hefur á þeim tíma leyst út minna en sem því nemur í gegnum skattalækkanir.

Herra forseti. Ríkisstjórnin missti af gullnu tækifæri, sagði ég í upphafi atkvæðaskýringar minnar. Það hefði verið hægt að fara aðrar leiðir til að nota það svigrúm sem er fyrir hendi til að jafna kjörin. Samfylkingin og stjórnarandstaðan hefðu viljað fara þá leið að auka barnabætur fyrr og meira. Við í Samfylkingunni erum þeirrar skoðunar að hluta af því svigrúmi sem er fyrir hendi hefði átt að nota til að koma í veg fyrir að tekjulítið aldrað fólk greiddi óhóflega eignarskatta en ekki í sama mund að fría stóreignamenn líka og fyrirtæki af því að greiða eignarskatta.

Það sem mestu skiptir um hin glötuðu tækifæri ríkisstjórnarinnar er að hér var komið í veg fyrir að Alþingi næði fram þeim meirihlutavilja sem liggur í salnum um að lækka matarkostnað íslenskra heimila um 5 milljarða. Það er sorglegt að á þessum degi, þegar þetta tækifæri er að renna okkur úr höndum, er það bara einn flokkur sem hefur komið í veg fyrir að matarkostnaður íslenskra heimila hefði verið lækkaður um 5 milljarða, sem kemur með ofbeldi í veg fyrir að matarskatturinn verði lækkaður um helming. Það er Framsóknarflokkurinn.

Þar er fremstur í flokki hæstv. forsætisráðherra sem kemur í veg fyrir að matarkostnaður íslenskra heimila sé lækkaður um 5 milljarða. Megi skömm Framsóknarflokksins lengi lifa í þessum sölum.