Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 10:08:26 (3374)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:08]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar er á þessu haustþingi að setja sín fyrstu fjárlög, fjárlög bættra lífskjara fyrir allan almenning á Íslandi með stærstu áform um skattalækkanir. Málflutningur Samfylkingarinnar og stjórnarandstöðunnar hefur verið með ólíkindum í allt haust. Gamla fólkið hefði sagt við hv. þm. Össur Skarphéðinsson: Snúðu ekki öllu á haus. Segðu satt og vertu drengur.

Hæstv. forseti. Gamla fólkið hefði kannski sagt: Vertu ekki með þennan stráksskap. Það hefði líka bætt við: Það er svartur blettur á tungunni á þér.

Lækkun eignarskatts er aðgerð til að bæta stórlega tekjur einstaklinga og aldraðra, tekjulágs fólks í skuldlitlum íbúðarhúsum. Að tekjuskattur á laun hins vinnandi manns skuli á kjörtímabilinu fara í 34% er sögulegur sigur fyrir hinn vinnandi mann á Íslandi. (Gripið fram í: Ertu ekki …?) Samfylkingin verður að viðurkenna það. Því verður fagnað hinn 1. maí í vor. (Gripið fram í.)

Ég vil svo segja um matarskattinn að þeirri leið hefur ekki verið hafnað af Framsóknarflokknum. (Gripið fram í: Noh!) (ÖS: Annað segir fjármálaráðherra.) (Gripið fram í: Hver stoppaði þetta af?) Öll góð mál koma ekki í einu. Við erum gagnrýnd líka fyrir að vera að lækka skatta of mikið af stjórnarandstöðunni úti í þjóðfélaginu. Nú verður sest yfir það. Framsóknarþingmenn hafa líka flutt hér þingmál um að fella niður virðisaukaskatt af barnafötum þannig að við erum skattalækkunarmenn og höfum ekki komið í veg fyrir neitt í þessum efnum. (Gripið fram í: Er flóttinn hafinn?) Lífskjör eru sem betur fer að stórbatna á Íslandi og þegar við horfum fram í tímann, fimm eða tíu ár, blasir við lífskjarabati til fólksins í landinu. (Gripið fram í.)

Hér í vetur hefur stjórnarandstaðan orðið sér til skammar upp á hvern einasta dag. Þjóðin mun átta sig á því á jólahátíðinni sem er fram undan. (Gripið fram í.)