Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 10:21:53 (3380)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:21]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Sú grein sem nú er verið að greiða atkvæði um lýtur að því að fella brott eignarskatta í landinu, bæði á einstaklinga og lögaðila, þar með talið allt það fólk sem greiðir eignarskatta af íbúðarhúsnæði sínu, oft og tíðum af litlum tekjum.

Það er mjög athyglisvert að fylgjast með því hvernig stjórnmálaflokkarnir greiða atkvæði í þessari atkvæðagreiðslu. Það er skiljanlegt að vinstri grænir sitji hjá því þeir eru á móti þessu máli í heild sinni en það er ótrúlegt að sjá samfylkingarfólkið sem veit greinilega ekki sitt rjúkandi ráð í þessu máli og treystir sér ekki til að fella niður eignarskattana af venjulegu vinnandi fólki. (Gripið fram í.) Það er ömurlegt að sjá þetta og þetta er eins og annar málflutningur Samfylkingarinnar sem telur greinilega líka að þótt verið sé að fella niður skatta eigi að hætta allri tekjuöflun fyrir ríkissjóð. (Gripið fram í.) Allt er þetta jafnömurlegt og sérstaklega frammíköll og fliss hv. formanns Samfylkingarinnar. Ég segi já, herra forseti.