Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 10:30:13 (3386)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:30]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð er hlynnt niðurfellingu eignarskatts af íbúðarhúsnæði fjölskyldna og einstaklinga í landinu en við erum með þá hugmynd að þeir sem eiga stórar eignir, umfram það sem getur talist nóg fyrir fólk til að nýta til íbúðar fyrir sig og fjölskyldu sína, séu hins vegar aflögufærir. Ég er satt að segja ekki sannfærð um að stóreignafólk í landinu sé svo hamingjusamt með þá grein sem við greiðum hér atkvæði um. Það sem hæstv. landbúnaðarráðherra segir um að vinstri grænir séu gjafmildir á annarra fé köllum við samábyrgð og meðvitund um það hvað þarf til að standa undir hinu félagslega velferðarkerfi.

Hæstv. forseti. Ég greiði ekki atkvæði um þessa grein.