Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 10:33:00 (3388)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:33]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um 1. gr. þessa fallega frumvarps. Þetta er enn einn gleði- og hamingjudagurinn þegar við erum að vinna áfram að þessu frumvarpi. Ég óska hæstv. fjármálaráðherra til hamingju og allri hæstv. ríkisstjórn. Ég óska hv. þingmönnum til hamingju með að fá tækifæri til að samþykkja svona fallegt frumvarp. Ég óska þjóðinni allri til hamingju, hinum vinnandi manni, þegar hún fær núna loksins einhverja umbun fyrir vinnu sína. (Gripið fram í.)

Það er sjaldan, herra forseti, sem við þingmenn fáum tækifæri til að fjalla um frumvarp sem mótar þjóðfélagið til framtíðar. Það erum við að gera núna. Við fellum niður eignarskattinn sem hvetur til sparnaðar og ráðdeildar og er gott fyrir aldraða. Við erum að lækka tekjuskattinn sem hvetur alla venjulega launþega til dáða og við erum að hækka barnabætur sem bætir stöðu barnafólks. Ég segi já með fögnuði.