Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 10:40:25 (3393)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:40]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér er að koma til atkvæða ein megingrein þessa frumvarps um 4% flata lækkun tekjuskatts sem þýðir tekjutap fyrir ríkissjóð á þremur árum upp á um 18 milljarða kr. Þetta bætist við áður lögfesta lækkun hátekjuskatts upp á 6–7% þannig að tekjuskattslækkun tekjuhæsta fólksins á Íslandi verður á fjórum árum 11%. Þar bætast við 2–2,5 milljarðar kr. þannig að samtals lækka tekjur ríkisins vegna beinna skatta, traustasta skattstofnsins, um vel yfir 20 milljarða á þessu árabili. Þeim fjármunum teljum við að væri betur ráðstafað með öðrum hætti en hér er lagt til.

Auk þess eru efnahagslegar aðstæður þannig að það er glapræði að færa þessa fjármuni út í samfélagið og auka á þann vanda sem við er að glíma í hagstjórninni. Það dregur úr jöfnuði og jafnrétti í landinu og þetta veikir undirstöður velferðarsamfélagsins á Íslandi. Við getum ekki stutt þessar breytingar, herra forseti, og greiðum því atkvæði gegn þeim.