Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 10:47:37 (3399)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:47]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að vekja athygli framsóknarmanna á því hvað hér er verið að greiða atkvæði um. Hér er verið að greiða atkvæði um það að barnabætur greiðist með öllum börnum að 18 ára aldri eins og Framsóknarflokkurinn lofaði á árinu 1999 en er aftur og aftur búinn að svíkja.

Áætlun ríkisstjórnarinnar um lækkun skatta og hækkun bóta hefur birst þjóðinni og það er alveg ljóst að Framsóknarflokkurinn ætlar ekki að efna loforð sitt frá 1999 á þessu kjörtímabili. Nú er tækifærið og ég skora á framsóknarmenn að sýna að þeir hafi meint eitthvað með þessu en hafi ekki ætlað sér að svíkja barnafólk í landinu. Hér er tækifærið, hér er greitt atkvæði um það að hækka barnabætur þannig að þær greiðist með öllum börnum að 18 ára aldri.