Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 14. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 14  —  14. mál.
Tillaga til þingsályktunarum breytingu á kennitölukerfi.

Flm.: Sigurjón Þórðarson.    Alþingi ályktar að fela ráðherra Hagstofu Íslands að gera úttekt á þeim forsendum sem liggja að baki kennitölukerfi einstaklinga hér á landi. Borið verði saman form kennitölu einstaklinga hér á landi og í nágrannaríkjum með tilliti til þess hvort þar sé notast við sambærileg kerfi til auðkenningar og hvort í þeim felist augljósar persónuupplýsingar. Þá verði metnir kostir og gallar þess að taka upp nýtt kerfi sem væri laust við persónuupplýsingar og gæti staðið við hlið núverandi kennitölukerfis þannig að fólk hefði val um kennitölu.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var áður flutt á 130. löggjafarþingi.
    Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá var hætt að nota nafnnúmer hér á landi um áramótin 1987/1988 og kennitölur teknar upp til að auðkenna einstaklinga. Einstaklingar fæddir 1975 og síðar fengu ekki nafnnúmer heldur kennitölur.
    Kennitölukerfið hefur reynst vel, að öðru leyti en því að í kennitölum okkar felast persónuupplýsingar. Oft hefur verið bent á að kennitölur séu notaðar óhóflega hér á landi og þeim mun bagalegra þykir fólki að þurfa sífellt að veita persónulegar upplýsingar ef það kærir sig ekki um það.
    Það eru sjálfsögð réttindi að fólk geti valið um það hvort það veitir persónulegar upplýsingar á borð við fæðingardag sinn og ár eða ekki. Rétt er að geta þess að í ríkjum þar sem íbúafjöldi hleypur á hundruðum milljóna, eins og t.d. í Bandaríkjunum, eru notaðar kennitölur sem veita engar persónuupplýsingar um viðkomandi einstaklinga.
    Tæknilega á ekki að vera vandkvæðum bundið að gera fólki mögulegt að velja hvort það notar þá kennitölu sem hið opinbera hefur úthlutað því eða sækir um aðra sem ekki felur í sér neinar persónuupplýsingar.
    Eflaust mætti innheimta hóflegt gjald af þeim sem kjósa sér kennitölu úr hinu nýja auðkennakerfi ef kerfið þætti ella of kostnaðarsamt fyrir ríkissjóð.