Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 104. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 244  —  104. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar um þrífösun rafmagns.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvar á landinu er þrífösun rafmagns ekki lokið og hvar er hún fyrirhuguð á næstunni?

    Rafdreifikerfi landsins til sveita var að stórum hluta byggt upp sem einfasa kerfi í byrjun og enn eru um 4.800 km af 11 og 19 kV línum í dreifbýli einfasa eða tæp 60% af þessum línum í dreifikerfi Rariks og Orkubús Vestfjarða. Einfasa línur eru um allt land en lengstu línurnar eru þó á fremur strjálbýlum svæðum.
    Ekki er unnið sérstaklega að þrífösun á ákveðnum svæðum heldur er hún samfara endurnýjun kerfisins. Nánast öll endurnýjun á 11 og 19 kV kerfinu er nú fólgin í lagningu þriggja fasa strengja og er árleg endurnýjun þessara lína í dreifikerfinu rúmir 100 km.
    Á þessu ári hefur Rarik áformað að verja 236 millj. kr. til styrkingar, endurnýjunar og nýlagna í sveitum. Hjá Orkubúi Vestfjarða hefur lítillega verið unnið við framkvæmdir við styrkingu og endurnýjun dreifikerfis á árinu. Hjá fyrirtækjunum hefur styrking og endurbætur veikustu hluta aðveitu- og dreifikerfisins haft forgang, því næst hafa komið þeir hlutar kerfisins þar sem mest töp eru. Af þessari ástæðu hefur uppbygging þriggja fasa kerfis ekki gengið hraðar fyrir sig en raun ber vitni. Raunar felst í endurnýjun dreifikerfisins þrífösun þess og hefur aðgangur notenda að þriggja fasa rafmagni batnað verulega en aðeins hluti þeirra hefur eigi að síður kosið að taka þriggja fasa rafmagn. Hægfara endurnýjun dreifikerfisins leysir því yfirleitt ekki vanda þeirra aðila er brýnustu þörf hafa fyrir þriggja fasa rafmagn.
    Árið 2002 var á vegum iðnaðarráðuneytis lokið við úttekt á þörf fyrir uppbyggingu þriggja fasa raforkukerfis og kostnaði við hana. Var gefin út sérstök skýrsla um niðurstöður þessarar athugunar. Við mat á þrífösunarþörf var m.a. byggt á svörum sveitastjórna við spurningum um þörf á þriggja fasa rafmagni í hverju byggðarlagi. Ekki hefur enn verið unnin sérstök framkvæmdaáætlun um þriggja fasa rafmagn, en unnið hefur verið að úrbótum síðustu tvö ár fyrir þá notendur sem mesta þörf hafa haft fyrir þriggja fasa rafmagn, m.a. með notkun tíðnibreyta og svokallaðra rafhrúta, sem breyta einfasa rafmagni í þriggja fasa rafmagn.
    Iðnaðarráðuneytið óskaði nýlega eftir því við Rafmagnsveitur ríkisins að gerð yrði kostnaðar- og framkvæmdaáætlun um brýnustu þörf fyrir þrífösun dreifikerfisins, sem byggðist á fyrrgreindri skýrslu um það efni og reynslu af notkun rafhrúta við þrífösun hjá einstökum notendum á síðustu tveimur árum. Í framhaldi af því er fyrirhugað að iðnaðarráðuneyti og fjármálaráðuneyti ásamt orkufyrirtækjunum geri tillögu um fjármögnun brýnustu aðgerða við þrífösun á landsbyggðinni.