Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 256. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 470  —  256. mál.
Svarviðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um útlán banka og sparisjóða.

     1.      Hversu mikið hafa bankar og sparisjóðir lánað til fasteignakaupa einstaklinga annars vegar og endurfjármögnunar hins vegar frá 23. ágúst til 1. nóvember og hversu margir voru lántakendur í hvorum flokknum fyrir sig?
    Frá 23. ágúst sl. til loka október höfðu bankar og sparisjóðir veitt ný fasteignaveðtryggð lán til 4.930 einstaklinga að heildarfjárhæð 55,3 milljarðar kr. Ekki liggja fyrir upplýsingar um skiptingu þessara lána annars vegar til fasteignakaupa og hins vegar til endurfjármögnunar.

     2.      Hve mikið af heildarlánveitingum til einstaklinga á þessu tímabili var yfir eftirgreindum fjárhæðum og hversu margir lántakendur fengu þau lán:
              a.      12 millj. kr.,
              b.      15 millj. kr.,
              c.      18 millj. kr.?

    Ekki liggja fyrir upplýsingar um skiptingu lána á fjárhæðir eins og tilgreindar eru í fyrirspurninni.

     3.      Hver var staðan á yfirdráttarlánum einstaklinga í upphafi þessa árs, 1. september sl. og 1. nóvember sl.?
    Yfirdráttarlán heimila í bönkum og sparisjóðum námu 56 milljörðum kr. 31. desember 2003 en nær 61 milljarði kr. 30. september sl. Ekki liggur enn fyrir hver fjárhæðin var 31. október sl.

     4.      Telur ráðherra að mikil útlán banka og sparisjóða ógni stöðugleika í efnahagslífinu og að bregðast þurfi við til að sporna við þenslu?
    Ný lán banka og sparisjóða til fasteignakaupa eru mikil framför á íslenskum lánamarkaði. Ekki liggur fyrir á þessu stigi hvort almennt sé um ný lán eða endurfjármögnun að ræða en búast má við að lánin örvi bæði eftirspurn eftir húsnæði og einkaneyslu í einhverjum mæli. Það er því ekki hægt að segja til um það nú hvort þessi útlán ógni stöðugleika og hvort ástæða sé til að bregðast við. Hins vegar hefur útlánavöxtur innlánsstofnana almennt verið umtalsverður allt frá árslokum 2002 og var t.d. 12 mánaða aukning útlána á fyrri hluta þessa árs yfir 30%. Þessi þróun útlánaaukningar, sem og þensla á fasteignamarkaði, staða kjaraviðræðna og stóriðjuframkvæmdir, gerir það að verkum að mikilvægt er að ríkisstjórn og Seðlabanki sýni aðhald í ríkisfjármálum og peningamálastefnu á næstu árum.