Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 564. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1036  —  564. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Gunnars Örlygssonar um útflutning og kynningu á íslensku lambakjöti á erlendum mörkuðum.

     1.      Hversu miklu fé hefur ríkissjóður varið sl. fimm ár í kynningu á lambakjöti fyrir erlenda markaði? Hversu hátt hlutfall er kynning á lambakjöti fyrir Bandaríkjamarkað í þessu sambandi?
    Nefnd um markaðssetningu dilkakjöts á erlendum mörkuðum skilaði ráðherra skýrslu í janúar sl. Í henni koma fram m.a. eftirfarandi upplýsingar:

Framlög til markaðsfærslu á lambakjöti erlendis árin 1998–2004,
á verðlagi hvers árs, þús. kr.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     2.      Hversu margir starfsmenn starfa fyrir ríkissjóð í þessu verkefni á ári?
    Um er að ræða hluta úr starfi eins starfsmanns sem vinnur að markaðsmálum dilkakjöts á erlendum mörkuðum.

     3.      Hvernig skiptist kostnaðurinn sem hlotist hefur af verkefninu (laun, ferðakostnaður, matvælasýningar, sími, auglýsingar o.s.frv.)?

    Samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá Framleiðnisjóði landbúnaðarins er skipting kostnaðar af „Áformsverkefninu“ sem hér segir árið 2004, en lokauppgjör ársins liggur ekki endanlega fyrir:
    Rekstur verkefnisins kostaði 10,5 millj. kr. Verkefnaútgjöld námu 22,4 millj. kr., þar af voru 10,5 millj. kr. innan lands og 11,9 millj. kr. erlendis. Verkefnaútgjöld og rekstur alls námu því 32,9 millj. kr. en tekjur voru 31,3 millj. kr. Halli af verkefninu varð því 1,6 millj. kr., en afgangurinn frá árinu 2003 var 2,3 millj. kr.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Af 10,8 millj. kr. verkefnakostnaði í Bandaríkjunum eru 3,4 millj. kr. vegna kynningar í verslunum vestanhafs og 3,5 millj. kr. vegna eins þáttar í matreiðsluþáttaröð PBS-TV sem nefnist „Chefs afield“. Einhver innlendur kostnaður féll á verkefnið.
    Stærsti einstaki innlendi kostnaðarliðurinn er 2,0 millj. kr. þátttaka í „Food and Fun“ matvælahátíðinni. Að öðru leyti er verkefnakostnaðurinn að mestu leyti flugfarseðlar, annar ferðakostnaður og hótelkostnaðar erlendis og kostnaður samfara móttöku lykilfólks sem hingað kemur til þess að kynnast aðstæðum, landi og þjóð, uppruna afurðanna o.s.frv.

     4.      Hefur eitthvað áunnist fyrir bændur í þessu verkefni? Er skilaverð hærra til bænda sem leiða fé sitt til slátrunar hjá afurðastöðvum sem framleiða lambakjötsafurðir til útflutnings?

    Í eftirfarandi töflu er yfirlit um útflutning á lambakjöti árin 2003 og 2004, magn og fob-verðmæti, ásamt meðalverði hvers kg kjöts eftir einstökum löndum.

Útflutningur lambakjöts árin 2003 og 2004.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Það er ætíð háð mati hversu mikill ávinningur er af slíkum verkefnum, en ljóst er að vegið meðalverð á útfluttu lambakjöti hefur hækkað um 49 kr./kg á milli árana 2003 og 2004, þrátt fyrir sterka stöðu krónunnar. Ekki liggja fyrir upplýsingar í ráðuneytinu um skilaverð til bænda fyrir þessar afurðir.

     5.      Hversu mikið af lambakjötsafurðum hefur farið til útflutnings á sl. fimm árum og hversu hátt er hlutfall útflutnings til Bandaríkjanna í því sambandi?
    Heildarútflutningur af kindakjöti hefur verið sem hér segir sl. fimm ár, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands:


Heildarútflutningur kindakjöts, 2000–2004, tonn.

Ár Flutt út Þar af til Bandaríkjanna
2000 1.333 36
2001 1.500 48
2002 1.518 55
2003 2.253 72
2004 1.732 105


     6.      Hvaða flutningafyrirtæki helst hafa flutt út afurðirnar og hvernig er hlutfallið á milli flutningsleiða, þ.e. annars vegar sjóflutninga og hins vegar landflutninga?

    Þessar upplýsingar liggja ekki fyrir í ráðuneytinu, en gera má ráð fyrir að meginhlutinn sé fluttur úr með skipi.

     7.      Hvaða afhendingarskilmála er notast við í samningum við kaupendur (cif, fob, ddp o.s.frv.) á lambakjötsafurðum til kaupenda á Bandaríkjamarkaði?

    Samkvæmt upplýsingum Norðlenska ehf., en það fyrirtæki sér um mestallan útflutninginn á Bandaríkjamarkað, er greitt undir vöruna inn í vöruhús kaupanda í Bandaríkjunum, þ.e. CIF-vöruhús.

     8.      Hverjir eru greiðsluskilmálar í samningum um lambakjötsafurðir til kaupenda á Bandaríkjamarkaði?

    Samkvæmt upplýsingum Norðlenska ehf. eru greiðsluskilmálarnir úttektarmánuður + mánuður, þ.e. að greitt er u.þ.b. tveim mánuðum eftir að varan er send frá Íslandi.

     9.      Eru lambakjötsafurðir tollskyldar inn til Bandaríkjamarkaðar?

    Nei, þær eru ekki tollskyldar lengur.