Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 760. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1267  —  760. mál.
Svarutanríkisráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um stuðning við íbúa á herteknum svæðum í Palestínu og Sýrlandi.         

     1.      Hvaða stuðning og framlög hafa opinberir aðilar veitt íbúum hertekinna svæða í Palestínu og Sýrlandi á sviði heilbrigðis- og mannúðarmála frá árinu 1993:
                  a.      til opinberra verkefna,
                  b.      til samstarfsverkefna,
                  c.      til verkefna eða starfa á vegum hjálparstofnana?

    Stuðningur og framlög opinberra aðila til íbúa hertekinna svæða í Palestínu á sviði heilbrigðis- og mannúðarmála hafa verið frá árinu 1993:
     a.      73.560.110 kr. hafa verið veittar til opinberra verkefna.
     b.      18.500.000 kr. hafa verið veittar til samstarfsverkefna. Ber þar helst að nefna framlög til íslensk-palestínskrar verkfræðistofu.
     c.      19.000.000 kr. hafa verið veittar til verkefna eða starfa á vegum Rauða krossins og Hjálparstarfs kirkjunnar.

     2.      Hafa stjórnvöld beitt sér á alþjóðavettvangi fyrir eftirliti og/eða aðgerðum gegn ofbeldis- og mannréttindabrotum á herteknum svæðum í Palestínu og Sýrlandi? Ef svo er, hvernig hefur sú afstaða Íslands komið fram?
    Afstaða Íslands er að vopnahléslínan frá 1949 (Græna línan) liggi til grundvallar áætlunum sem leiða til þess að tvö ríki, Ísrael og Palestína, búi hlið við hlið innan öruggra og viðurkenndra landamæra. Ríkisstjórnin styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna á hernumdu svæðunum og hefur lagt fram fjármagn til mannréttindavaktar á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar. Ísland hefur innan sameinuðu Sameinuðu þjóðanna, sem og víðar, fordæmt ofbeldisverk beggja aðila og krafist þess að þeir hefji friðarviðræður á grundvelli fyrri samningaviðræðna og Vegvísins svonefnda. Það hefur verið afstaða íslenskra stjórnvalda að styðja tillögur þar sem fyllsta jafnræðis hefur verið gætt í útlistun á skyldum og ábyrgð deilandi aðila.