Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 14:33:48 (4886)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[14:33]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Þetta snýst um skiptingu verkefna, sagði hæstv. dómsmálaráðherra. Er verið að draga úr verkefnum lögreglumanna á landsbyggðinni? Fólk á landsbyggðinni óttast það vegna þess að alltaf þegar haldin eru íþróttamót eða skemmtanir er lögreglunni gert að senda reikning fyrir löggæslukostnaði. Mér finnst að hæstv. dómsmálaráðherra ætti að gera hreint fyrir sínum dyrum. Hvaðan eiga fjármunirnir að koma til þess að starfrækja nýja öryggislögreglu hér á Reykjavíkursvæðinu? Eiga þeir að koma utan af landi eða hvaðan eiga þeir að koma? Mér finnst að hæstv. dómsmálaráðherra eigi að svara því.

Síðan segir hann að mikill árangur hafi orðið af því að efla víkingasveitina. Vegna þess að hæstv. dómsmálaráðherra hafði orð á því að hann vildi hafa mælanleg markmið vil ég spyrja: Hefur hann mælt þennan árangur með einhverjum hætti, frú forseti?